Blæðingar og bylgjur hættan

Samgöngur Vegurinn frá Borgarnesi ásamt Snæfellsneshringnum illa farinn af bylgjum …
Samgöngur Vegurinn frá Borgarnesi ásamt Snæfellsneshringnum illa farinn af bylgjum og hvörfum. Ástæðan er frostlyfting sem gengur ekki til baka. Ljósmynd/Vegagerðin

„Það eru ekki bara blæðingarnar í vegunum sem eru vandamálið heldur ekki síður hvað vegirnir eru ójafnir og það myndast bylgjur og hvörf sem valda hættu þegar við keyrum með blá ljós á öðru hundraðinu með sjúkling í bílnum. Maður man náttúrulega ekki alltaf eftir öllum hvörfum í veginum og þegar það gerist þá erum við með sjúklinginn fljúgandi.“

Þetta segir Einar Þór Strand, sjúkraflutningsmaður og slökkviliðsstjóri í Stykkishólmi, spurður um ástand vega á Vesturlandi og áhrif þess á sjúkraflutninga.

„Það er náttúrulega best að vera bara með kolsvartan húmor í þessu og við höfum sagt að úr því að ekki sé hægt að laga vegina þá sé kannski reynandi að virkja þetta ástand með þeim hætti að við gætum sparað okkur hjartahnoðstækin með því að skorða spýtu frá brjóstkassa sjúklingsins upp í toppinn á bílnum, keyra svo á 140 km hraða til Reykjavíkur og þá erum við komin með 120 slög á mínútu.“

Hann segir að bylgjurnar í veginum séu frá Borgarnesi og allan Snæfellsneshringinn.

„Ástæðan fyrir bylgjunum og hvörfunum í vegunum er frostlyfting sem gengur ekki til baka og vandamálið heldur áfram að vaxa á sama tíma og ekki fæst nema þriðjungur af þeim peningum sem í vegakerfið er innheimt með margs konar gjöldum til ríkisins.“

Um blæðingarnar á vegunum segir Einar að malbikið sé ekki lengur blandað með steinolíu.

„Nú er hætt að nota steinolíu við að þynna bikið og í stað þess er notað lýsi og jurtaolía, því það á að vera svo umhverfisvænt og á að minnka eitthvert kolefnisfótspor. Steinolían gufaði upp á einhverjum vikum eftir að malbikið var lagt og þá var tjaran harðari. Jurta- og dýrafituolíur gufa ekkert upp og sitja eftir í malbikinu og gera það mýkra,“ segir Einar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert