Fundi samninganefnda Kennarasambands Íslands, ríkis og sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara lauk á áttunda tímanum í kvöld.
Ríkissáttasemjari hefur verið boðað til nýs fundar í fyrramálið klukkan 11.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir að engin tíðindi séu úr Karphúsinu eftir fundinn en að það sé alltaf jákvætt þegar fólk vilji ræða saman.
Það var KÍ sem hafði frumkvæði og óskaði eftir fundinum, en Ástráður sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ekki ætti að lesa of mikið í það þó að annar deiluaðilinn óski eftir fundi.
Spurður hvort það hafi verið nýtt hljóð í samninganefnd KÍ á fundinum kveðst Ástráður ekki geta farið í efnisleg atriði fundarins.
„Á meðan fólk er að tala saman þá er alla vega einhver von að eitthvað gerist,“ segir hann.
Félag leikskólakennara boðaði í dag til ótímabundinna verkfalla í leikskólum í Hafnafirði og Fjarðabyggð sem hefjast annars vegar 17. mars og hins vegar 24. mars, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.
Þá hafa einnig verið boðuð verkföll í öllum 22 leikskólum Kópavogsbæjar 3. mars, verði ekki búið að semja fyrir þann tíma.
Boðuð hafa verið verkföll í fimm framhaldsskólum sem eiga að hefjast á föstudag. Verkföllin eru boðuð í: Borgarholtsskóla, Fjölbrautarskóla Snæfellinga, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskóla Austurlands.