Boða verkföll í tveimur sveitarfélögum til viðbótar

Verkföll hafa nú verið boðuð í fleiri sveitafélögum.
Verkföll hafa nú verið boðuð í fleiri sveitafélögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félag leikskólakennara hefur boðað til ótímabundinna verkfalla í leikskólum í Hafnarfirði og í Fjarðabyggð sem hefjast annars vegar 17. mars og hins vegar 24. mars hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.

Yfirgnæfandi meirihluti félagsfólks Félags leikskólakennara (FL), sem starfar hjá sveitarfélögunum tveimur samþykkti aðgerðirnar í atkvæðagreiðslu sem hófst í fyrradag, 17. febrúar, og lauk á hádegi í dag. Þátttaka var í báðum tilfellum góð, eða um 80 prósent, að því er segir í tilkynningu frá Kennarasamabandi Íslands.

Þá hafa verið boðuð verkföll í öllum 22 leikskólum Kópavogsbæjar þann 3. mars næstkomandi, hafi samningar ekki náðst. En leikskólakennarar í Leikskóla Snæfellsbæjar, hafa verið í verkfalli síðan 1. febrúar síðastliðinn. 

Verkföll á fleiri skólastigum skella á fljótlega

Ótímabundin verkföll verkföll hafa einnig verið boðuð í fimm framhaldsskólum; Borgarholtsskóla, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskóla Austurlands næsta föstudag, sem hefjast á föstudag, þau 21. febrúar, hafi samningar ekki náðst..

Félagsfólk í Félagi grunnskólakennara (FG) og Skólastjórafélagi Íslands (SÍ), sem starfar hjá sveitarfélögunum Ölfusi, Hveragerðisbæ og Akraneskaupstað, hefur jafnframt samþykkt verkfallsboðun frá 3. mars næstkomandi.

Verkfallsboðun nær einnig til félagsfólks sem starfar á skólaskrifstofum sveitarfélaganna. Verkföll grunnskólafélaganna verða tímabundin og standa til og með 21. mars 2025.

Félagsfólk í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, sem starfar í Tónlistarskóla Akureyrar, hefur jafnframt samþykkt boðun verkfalls frá og með næsta föstudegi, 21. febrúar. Verkfallið verður tímabundið og stendur til og með 4. apríl, hafi samningar ekki náðst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert