„Í verstu stöðu sem við höfum verið“

Staðan í málefnum barna með fjölþættan vanda hefur aldrei verið …
Staðan í málefnum barna með fjölþættan vanda hefur aldrei verið verri að sögn forstjóra Barna- og fjölskyldustofu. Samsett mynd

Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu segir stöðuna aldrei hafa verið jafn slæma í málefnum barna með fjölþættan vanda. Ástandið hafi farið stigversnandi síðustu ár. Ýmis áföll eins og mygla í húsnæði og bruni á Stuðlum í október síðastliðnum hafi sett strik í reikninginn. Þá hafi vistun barna sem afplána dóma áhrif á úrræði fyrir aðra skjólstæðinga. 

Umboðsmaður barna hefur lýst yfir neyðarástandi í málaflokknum og í bréfi sem sent var fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra í nóvember síðastliðnum kom fram að aukið fjármagn hefði ekki skilað þeim árangri að bæta úr vandanum. Úrræðum hefði fækkað og þjónusta verið skert.

Í bréfi til nýs ráðherra í byrjun febrúar ítrekar umboðsmaður gagnrýni sína og segir þau meðferðarúrræði sem ríkið beri ábyrgð á ekki standa undir hlutverki sínu. „Meðferðarkerfið sé því ófært um að sinna þeirri þjónustuþörf sem því er ætlað að sinna í þágu þessa viðkvæma hóps.“

Meðferðarheimili sem til stóð að byggja er enn á teikniborðinu, loka varð öðru heimili eftir að mygla kom þar upp, það þriðja eyðilagðist að hluta í bruna þar sem barn lést, húsnæðið undir það fjórða er ekki hægt að nýta því það uppfyllir ekki kröfur um brunavarnir.

Á meðan bíða börn með alvarlegan fíkni- og hegðunarvanda eftir viðeigandi úrræðum og eru einhver þeirra jafnvel á götunni. Þetta er staðan sem blasir við þegar kemur að málefnum barna með fjölþættan vanda og eru þá ekki upptalin vandræði með viðeigandi húsnæðiskost fyrir nauðsynleg úrræði. 

Áfram vistað í Flatahrauni þó það sé óboðlegt

Eins og mbl.is greindi fyrst frá í október síðastliðnum og fjallaði aftur um í síðustu viku eru börn nú neyðarvistuð á lögreglustöðunni í Flatahrauni í Hafnarfirði, þrátt fyrir að aðstaðan þar sé óboðleg börnum að mati umboðsmanns barna. Bæði forstjóri Barna- og fjölskyldustofu og mennta- og barnamálaráðherra hafa tekið undir þau sjónarmið.

Að sögn þeirra beggja er um neyðarráðstöfun að ræða, þar sem álman sem hýsti neyðarvistun á Stuðlum gjöreyðilagðist í brunanum í október.

Rými fyrir neyðarvistun var stúkað af inni á meðferðardeildinni, en það hentar ekki erfiðustu tilfellunum. Gert er ráð fyrir að rúmt ár taki að endurbyggja álmu fyrir neyðarvistun á Stuðlum, og eina húsnæðið sem virðist í boði á meðan er lögreglustöðin í Flatahrauni.

Fyrir brunann í október var einnig í boði hefðbundið meðferðarúrræði á Stuðlum fyrir börn með fjölþættan vanda, en nú eru þar vistuð börn sem afplána dóma og sæta gæsluvarðhaldi. Þá eru Stuðlar að einhverju leyti nýttir sem langtímaúrræði fyrir það sem kallað er þyngstu tilfellin.

Ennþá óvissa með meðferðarheimili 

Opna átti nýtt meðferðarheimili í Blönduhlíð í Farsældartúni í Mosfellsbæ í desember síðastliðnum og færa átti starfsemina sem var á Stuðlum þangað. Heimilið hefur hins vegar enn ekki verið opnað og nú er óvíst hvort nokkuð meðferðarheimili verði í Blönduhlíð.

Til að húsnæðið uppfylli kröfur um brunavarnir þarf að ráðast í umfangsmiklar og kostnaðarsamar endurbætur.

Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra, þóttist reyndar opna meðferðarheimilið fjórum dögum fyrir alþingiskosningar og bauð fjölmiðlum að vera viðstaddir. Þá átti brunaúttekt eftir að fara fram og heimilið hafði ekkert starfsleyfi og hefur enn ekki fengið.

Barna- og fjölskyldustofa hefur því tekið á leigu húsnæði á Vogi undir starfsemi meðferðarheimilis, sem opnað var í síðustu viku. Þá hafði hefðbundin meðferð fyrir börn með fjölþættan vanda ekki verið í boði frá því í október síðastliðnum.

Leigusamningurinn á Vogi er tímabundinn til áramóta en óvíst er hvert starfsemin flyst eftir það. Á meðan greiðir Barna- og fjölskyldustofa 1,8 milljónir króna á mánuði í leigu fyrir húsnæðið á Vogi og 750 þúsund krónur á mánuði fyrir Blönduhlíð.

Þá varð að loka langtímameðferðarúrræði fyrir drengi á Lækjarbakka á Suðurlandi fyrir tæpu ári, þegar í ljós kom mygla í húsnæðinu. Búið er að útvega húsnæði undir starfsemina í Gunnarsholti, en þar á eftir að ráðast í töluverðar framkvæmdir áður en starfsleyfi fæst. Ekkert langtímaúrræði hefur verið í boði fyrir drengi frá því Lækjarbakka var lokað, fyrir utan erfiðustu tilfellin, sem hafa fengið inni á Stuðlum.

Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra, þóttist opna meðferðarheimilið …
Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra, þóttist opna meðferðarheimilið í Blönduhlíð fjórum dögum fyrir kosningar. Þá hafði brunaúttekt ekki farið fram. Með honum á myndinni eru Ólöf Ásta og Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu. mbl.is/Karítas

Börn í afplánun teppi meðferðardeildina

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir húsnæðið í Blönduhlíð hafa verið hugsað sem bráðabirgðalausn fyrir meðferðarheimili, þar sem til hafi staðið að byggja nýtt meðferðarheimili frá grunni í Garðabæ fyrir börn með fjölþættan vanda. Viljayfirlýsing vegna verkefnisins var undirrituð af ráðherra og bæjarstjóra Garðabæjar árið 2018, en ekkert bólar á heimilinu.

Hún segir þá erfiðu stöðu sem upp er komin núna að einhverju leyti mega rekja til þess að nýta þurfi Stuðla undir gæsluvarðhald og afplánun.

„Vandinn í grunninn kemur vegna þess að við erum að fá skjólstæðingahóp sem við höfum ekki haft áður, börn sem eru að afplána dóma. Það er nýr veruleiki fyrir okkur og þau börn eru að teppa meðferðardeild Stuðla,“ segir Ólöf.

„Þá urðum við líka, til að geta aðgreint hópa sem eru komnir mislangt, annars vegar mislangt í neyslu eða vanda, að hafa þyngri skjólstæðingahópa á einum stað, og annan skjólstæðingahóp sem er kannski kominn skemur, í greiningu og meðferð annars staðar.“

Fjármagnið er til en heimilið enn ekki risið

Hún segir hafa staðið til að yngri börn og þau sem væru ekki í mikilli neyslu færu í Blönduhlíð.

„Við fáum þetta húsnæði því það á að byggja meðferðarheimili, sem hefur verið á teikniborðinu lengi. Það á að fara að byggja slíkt heimili og það er komið eitthvað af stað, en það hefur dregist í mörg ár. Það er vandinn,“ segir Ólöf og vísar þar til meðferðarheimilisins sem rísa átti í Garðabæ.

Fjármagnið er til staðar, að minnsta kosti að hluta til, að sögn Ólafar. Því hafi verið haldið til hliðar þó að framkvæmdir við heimilið hafi tafist. Garðabær og ríkið hafi hins vegar deilt um ákveðin útfærsluatriði.

„Svo er líka verið að tala um meðferðarheimili inni á Farsældartúni, þess vegna var hugmyndin að nota þetta húsnæði sem þegar var á staðnum, gera breytingar á því, til að auðveldara yrði að færa á milli.“

Eins og greint hefur verið frá er gert ráð fyrir því, samkvæmt deiliskipulagi, að ráðist verði í mikla uppbyggingu á Farsældartúni í þágu barna með fjölþættan vanda. Að þar verði í framtíðinni ýmis þjónusta og úrræði fyrir börn og foreldra þeirra.

17 ára piltur lést í bruna á Stuðlum í október …
17 ára piltur lést í bruna á Stuðlum í október síðastliðnum. mbl.is/Ólafur Árdal

Lentu í vanda út af öryggiskröfum

Ólöf segir að öryggiskröfur varðandi meðferðarheimili, þar sem innritun og útskrift fari fram, séu mun stífari en fyrir aðra starfsemi, eins og stuðningsheimili. Til að mynda þurfi að vera tveir útgangar á hverri hæð.

„Þess vegna lentum við í þessum vanda. Það eru bara öryggiskröfur og eftir brunann eru öryggiskröfurnar mjög miklar.“

Því hafi verið ákveðið að taka rými á Vogi á leigu, sem stóð autt, og flytja starfsemi meðferðarheimilisins þangað. Um er að ræða nýjustu álmuna, sem aðgreind er frá annarri starfsemi, tvær hæðir með sérinngangi.

„Við leigjum það húsnæði á meðan við tökum ákvörðun um næstu skref. Það er ekkert útséð með að við munum nýta þetta húsnæði því það er svo mikil þörf fyrir ýmiss konar vinnslu. Eins og til dæmis stuðningsheimili og þetta væri tilvalið fyrir það,“ segir Ólöf og vísar til Blönduhlíðar. En að til að reka slíkt úrræði þurfi hins vegar viðbótarfjármagn.

Áföll hafi sett strik í reikninginn

Nú eruð þið að greiða leigu bæði fyrir Vog og Blönduhlíð, eru þetta ekki peningar sem gætu nýst betur?

„Við þurfum að borga leigu fyrir húsnæðið sem við erum að endurbyggja. Þetta er það sem við þurfum að skoða núna, hver er staðan, áður en við sleppum tökunum. Hvernig er hægt að nýta þetta í þágu barna. Þörfin er það mikil í samfélaginu þannig við þurfum að skoða það, en það er vinna sem þarf að eiga sér stað.“

Umboðsmaður hefur sent ráðuneytinu bréf þar sem hún lýsir yfir ófremdarástandi í þessum málaflokki, það er hennar mat á stöðunni, er það þín upplifun?

„Já, staðan er mjög slæm og það hefur farið stigvaxandi. Það hafa mörg áföll komið upp, annars vegar mygla í húsnæði og það er bruninn. Þetta hefur sett gríðarlega mikið strik í reikninginn, miðað við að staðan var orðin slæm fyrir.“

Hefur staðan einhvern tíma verið svona slæm?

„Ég myndi segja að við séum í verstu stöðu sem við höfum verið. Oft hefur staðan verið slæm en ég held við séum í þeirri verstu sem við höfum verið í.“

Ólöf segist þó bjartsýn með aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar.

„Við erum öll af vilja gerð til að reyna að bæta þjónustu við barnavernd og börn landsins, sem eru í þessum vanda. Ég bind vonir við að náum að koma á skrið fleiri úrræðum og þjónustu við börn í þessum vanda.“

Gert er ráð fyrir að endurbygging álmu fyrir neyðarvistun á …
Gert er ráð fyrir að endurbygging álmu fyrir neyðarvistun á Stuðlum taki rúmt ár. mbl.is/Karítas

Tekur upp í eitt og hálft ár að þjálfa starfsfólk

Eins og rakið hefur verið hér að ofan er vandinn að miklu leyti bundinn við skort á viðeigandi húsnæði fyrir þau úrræði sem eru í boði.

Ólöf segir þau hins vegar hafa verið heppin með starfsfólk og þau hafi því ekki glímt við mönnunarvanda að neinu ráði. Það taki þó tíma að þjálfa starfsfólk þegar nýtt meðferðarheimili er opnað.

„Það tekur gríðarlegan tíma að þjálfa fólk upp í þessa starfsemi. Hvernig við mætum börnum í mismunandi stöðu. Mætum þeim þar sem þau eru.“

Starfsfólk fær meðal annars þjálfun í áfallamiðaðri nálgun og því að mæta ofbeldi.

„Þetta krefst rosalegrar vinnu og ég myndi telja að það taki eitt til eitt og hálft ár fyrir starfsfólk að verða vel þjálfað til að geta sinnt börnum með þennan vanda.“

Starfsfólkið sem nú starfar við meðferðarúrræðið á Vogi kemur að hluta til frá Stuðlum og hefur því góða reynslu, en einnig var ráðið inn nýtt starfsfólk á báða staði sem fær þjálfun.

„Þannig erum við með grunn af vel þjálfuðu fólki, en það tekur tíma. Við getum aldrei opnað meðferðarheimili bara með nýju starfsfólki. Það er kannski líka vandinn við að fá nýtt fólk, en margt fólk sýnir áhuga.“

Aðstaðan á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði þykir ekki boðleg …
Aðstaðan á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði þykir ekki boðleg börnum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert