Litlar breytingar hafa orðið á kvikusöfnun eða landrisi á Sundhnúkagígröðinni undanfarna daga. Safnast hefur um það bil það sama magn af kviku og var til staðar þegar tók að gjósa síðast, í nóvember á síðasta ári.
Þetta segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hann segir ómögulegt að spá fyrir um hvenær næsta gos fari af stað. Það gætu verið nokkrir dagar eða vikur.
Í tilkynningu sem Veðurstofan sendi frá sér í gær segir að jarðskjálftavirknin á svæðinu hafi verið stöðug í febrúar og að um fimm jarðskjálftar, eða færri, hafi fundist á dag.