Mikill áhugi er á sögufrægri eign Háskóla Íslands við Suðurgötu og var góð mæting á opið hús á dögunum.
Þetta segir Hrund Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Framkvæmdasýslu – Ríkiseignum (FSRE), í samtali við mbl.is.
Eignin er 405 fermetrar og er ásett verð 465 milljónir króna.
Á lóðinni standa tvö hús, nýi Skólabær, steinsteypt og fallegt einbýlishús hannað af Guðjóni Samúelssyni og Hjálmari Sveinssyni árið 1928, og gamli Skólabær, bárujárnsklætt timburhús byggt af Valda Valdasyni árið 1867 og friðað árið 2012.
Kvöð hvíldi á eigninni, sem gerði háskólanum áður óheimilt að selja hana, þrátt fyrir að hún hafi lítið verið notuð að undanförnu.
„Húsið var gefið háskólanum til ævarandi eignar,“ sagði Kristinn Jóhannesson við mbl.is þegar fjallað var um eignina fyrir rúmri viku.
Þurfti því að aflétta kvöðinni áður en hægt var að setja eignina á sölu.
Eignina má skoða betur á fasteignavef mbl.is.