„Við erum búin að staðfesta það með sýnatökum úr rófustöppunni að það var hún sem var að valda veikindunum,“ segir Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands, í samtali við mbl.is.
75 þorrablótsgestir tilkynntu einkenni sín til landlæknis, miðað við tölur gærdagsins, eftir að hópsýking kom upp eftir þorrablótið á Brúarási á Fljótsdalshéraði sem fram fór um helgina.
Að sögn Láru fannst mikill vöxtur grómyndandi jarðvegsbaktería í rófustöppunni.
„Sjúkdómseinkennin og tímalengd einkennanna kemur vel saman við fræðin um þessi veikindi sem þessar bakteríur valda.“
Slíkar bakteríur valda snöggum niðurgangi en fylgikvillar eru mjög sjaldgæfir.
„Það kemur heim og saman við það að það eru langflestir búnir að jafna sig.“
Athygli vakti einnig fyrr í mánuðinum þegar upp komu hópsýkingar í tengslum við tvö þorrablót á Suðurlandi.