Segir nýjan veruleika blasa við

Ingibjörg segir tengsl vera á milli þeirra barna sem þurfi …
Ingibjörg segir tengsl vera á milli þeirra barna sem þurfi stuðning kerfisins og svo vísbendinga um efnahagslega og félagslega stöðu. Samsett mynd

„Við erum öll sammála markmiðinu. Það er bara spurning um leiðir, hvort við getum sammælst um einhverjar leiðir saman. En númer eitt, tvö og þrjú er bara hvað er best fyrir börnin okkar í samfélaginu – þau eru framtíðin okkar.“

Þetta segir Ingi­björg Isak­sen, formaður þing­flokks Fram­sókn­ar, í samtali við mbl.is.

Hún hafði kallað eft­ir því að málefni barna í viðkvæmri stöðu yrðu tekin fyr­ir á fundi alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar í gær, í kjölfar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins um langvarandi ofbeldis- og eineltisvanda í Breiðholtsskóla.

Einblína þarf á forvarnir

„Nefndin er samhuga í því að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá upplýsingar um þetta og hvernig við getum beitt okkur í þessu,“ segir Ingibjörg um þennan málaflokk eftir fund nefndarinnar.

Ræddur hafi verið stuðningur við börn í íslensku skólakerfi. Nefndin styðjist við gögn varðandi ofbeldi barna, til að mynda skýrslur sem gefnar hafa verið út, og kalli eftir aðgerðum í tengslum við það úrræðaleysi sem greint hefur verið frá.

„Bæði þurfum við að einblína á það að grípa börnin og slökkva elda en við þurfum líka að einblína á forvarnir,“ segir Ingibjörg.

Þessi mál liggi þvert á nefndir og ráðuneyti en byrjað hafi verið á að fá starfsmenn mennta- og barnamálaráðuneytisins á fundinn til að fara yfir ýmis atriði. Áætlað er svo að halda áfram að fá gesti á fundi eftir næstu viku, sem er kjördæmavika, „en strax eftir hana þá munum við halda áfram með umfjöllun um þetta“.

Ingibjörg segir að vandinn fari vaxandi og að nýr veruleiki …
Ingibjörg segir að vandinn fari vaxandi og að nýr veruleiki blasi við okkur. Ljósmynd/Colourbox

Vaxandi vandi og nýr veruleiki

Ingibjörg segir að horfa verði á samhengið í heild og hvernig við getum sem samfélag brugðist við. Málaflokkurinn sé „ein af stóru áskorunum okkar núna og til næstu ára“.

Hún segir að ofbeldi og áhættuhegðun meðal barna hafi greinilega aukist, skýrsla Barna- og fjölskyldustofu sýni það, og tekur sérstaklega fram að skýrslan sýni aukna áhættuhegðun stúlkna.

„Það er ákveðinn hópur sem er að brjóta af sér oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og þá er spurningin hvernig getum við gripið strax til áður en í óefni er komið.“

Hún segir að margt mjög gott hafi verið gert fyrir málaflokkinn. Vandinn fari þó vaxandi og nýr veruleiki blasi við okkur.

„Líka bara úrræðin fyrir þessa krakka, eins og þið hafið fjallað um varðandi fangelsið, þau eiga ekkert heima í fangelsi,“ segir hún og vísar til þeirra aðstæðna sem mbl.is greindi frá að börn byggju við í lögreglustöð í Hafnarfirði.

Stuðningur við börn með erlendan bakgrunn

Ingibjörg segir tengsl vera á milli þeirra barna sem þurfi stuðning kerfisins og svo vísbendinga um efnahagslega og félagslega stöðu.

„Þetta eru líka börn með erlendan bakgrunn. Við sjáum það að það er fjölgun barna í íslensku samfélagi með erlendan bakgrunn og það er bara spurning hvernig við getum tekist á við það að hjálpa þessum börnum og foreldrum.“

Mælingar sýni að almennt gangi þeim börnum verr í námi og þau hafi í auknum mæli þörf fyrir þyngri úrræði.

„Þannig að þetta er verðugt verkefni, en við erum öll samstiga þvert á flokka sem er mjög jákvætt í þessum málaflokki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert