Segir ráðherra hafa eignað sér hróðurinn

Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins.
Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Karítas

Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins sendi fjármálaráðherranum Daða Má Kristóferssyni pillu í óundirbúnum fyrirspurnum á þinginu í vikunni.

Þótti henni ráðherrann hafa eignað sér hróðurinn af vinnu starfsstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem settu lög sem fólu í sér hið nýja verklag um faglega skipan í stjórnir ríkissfyrirtækja.

Benti hún á að Viðreisn hefði ekki greitt atkvæði með frumvarpinu í fyrra.  

„Hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra hefur í allri sinni kynningu á þessu nýja verklagi látið að því liggja að breytingin sé frá honum komin þegar hið rétta er að það var starfsstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem gerði það undir lok síðasta kjörtímabils,“ sagði Ingibjörg.

Viðreisn studdi málið ekki í fyrra

„Nefna má í þessu samhengi að þingflokkur Viðreisnar greiddi reyndar ekki atkvæði með því frumvarpi en nú virðist vera komið annað hljóð í strokkinn, sem er vel. Það er gott að hér sé verið að fara að lögum, ólíkt því sem er gert gagnvart styrkjum til stjórnmálaflokka,“ bætti Ingibjörg enn fremur við.

Ingibjörg beindi spurningu að ráðherra um fyrirkomulag skipunar í valnefndirnar og hvernig tryggja ætti lýðræðislega aðkomu þingsins að þeim.

Fjármálaráðherra sagðist glaður taka undir orð Ingibjargar hvað vinnu starfsstjórnarinnar varðar.

„Það ber að þakka að síðasta þing samþykkti þessa breytingu sem vissulega hefur fengið mjög góðan hljómgrunn hjá núverandi ríkisstjórn,“ sagði Daði.

Hann sagði jafnframt að horft hefði verið til reynslu af sambærilegu fyrirkomulagi hjá Bankasýslunni. Formaður valnefndar gagnvart bönkunum verði formaður valnefnda fyrir öll stærri ríkisfyrirtæki. Síðan verði sótt fólk með fagþekkingu á því sviði sem ólík fyrirtæki eru á til þess að koma að valinu.

Hann svaraði því þó ekki að sinni hvernig tryggja ætti lýðræðislega aðkomu þingsins.

Lýsti áhyggjum af skorti á temprun valds

„Tilgangur og andi laganna er að koma í veg fyrir að hið raunverulega vald sé í reynd í höndum ráðherrans eins,“ benti Ingibjörg á í seinni fyrirspurn sinni og spurði ráðherra í kjölfarið:

„Finnst ráðherra það samræmast markmiði laganna um gagnsæi og fagleg vinnubrögð ef einungis er tekið tillit til sjónarmiðs ráðherrans við skipan valnefnda? Kemur ekki til greina í huga hæstvirts ráðherra, til að undirstrika temprun valds, að til dæmis stjórnarandstaðan tilnefni einnig nefndarmann í valnefndina að lágmarki, sem ráðherra skipar, svo lengi sem skilyrði laganna um hæfi séu uppfyllt?“

Ráðherra svaraði því til að fyrirkomulagið sem horft væri til studdist alfarið við faglega skipaðar valnefndir.

„Það er raunar þannig að lesi maður frumvarpið frá Alþingi og greinargerð með því þá eru engin sjónarmið um neina aðra aðkomu þar til staðar,“ sagði Daði. Hans aðkoma snúist einungis um það að gæta samræmis í samsetningu stjórnar.

Starfsmenn ráðuneytis ekki skipaðir í stjórnir

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, fylgdi spurningum Ingibjargar eftir og spurði meðal annars að því hvort hann það kæmi til greina að skipa starfsmenn fjármálaráðuneytisins í stjórnir þeirra opinberra hlutafélaga sem um ræddi.

„Ekki í þessu tilfelli, þannig að ef þú ert að spyrja bara um þessi félög hér þá er það ekki það sem markmiðið er,“ svaraði ráðherra.

Félögin sem um ræddi eru Landsvirkjun, Isavia, Rarik, Harpa o.fl. og er ekki annað að skilja af orðum ráðherra en að starfsmenn ráðuneytis hans komi ekki til greina í stjórnarsetu þeirra félaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert