Segir ráðherrann hafa sýnt mikið þekkingarleysi

Jón Pétur Zimsen ræddi við mbl.is um málflutning menntamálaráðherrans í …
Jón Pétur Zimsen ræddi við mbl.is um málflutning menntamálaráðherrans í tengslum við nýtt samræmt námsmat. Samsett mynd

„Mér finnst þessi mál hafa verið í miklum ólestri í langan tíma vegna þess að þingið hefur ekki veitt þeim næga athygli eða haft í raun þekkingu til að vinna með þetta.“

Þetta segir Jón Pétur Zimsen þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is um samræmt námsmat í grunnskólum, en til snarpra orðaskipta kom milli hans og menntamálaráðherra við umræður um breytingafrumvarp grunnskólalaga á mánudaginn.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á samræmdu námsmati sem skyldubundið er í grunnskólum.

Í stað þess að leggja samræmd könnunarpróf fyrir 4. og 7. bekk, og einu sinni á unglingastigi í íslensku, stærðfræði og ensku, verði svokallað skyldubundið samræmt námsmat í 4., 6. og 9. bekk í íslensku og stærðfræði og rúmist undirgreinar innan þessara matsgreina, svo sem lesskilningur og íslenska sem annað mál innan íslensku.

Sjö ár verða liðin en innleiðingu samt flýtt

Niðurstöður þessa verði aðgengilegar í miðlægum gagnagrunni og hægt verði að tengja niðurstöður námsmats í grunnskólum við fjölbreytta tölfræði um farsæld barna. Með nýju fyrirkomulagi, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er stefnt að því að betur verði hægt að stuðla að árangursríkum snemmtækum stuðningi og tryggja að börn fái aðstoð um leið og þörf krefur.

Eins og mbl.is hefur ítarlega fjallað um þá er matinu ætlað að koma í stað samræmdu könnunarprófanna, sem lögð voru niður á tímum fyrri ráðherra. 

Þegar nýja náms­matið verður til­búið til skyldu­bund­inn­ar notk­un­ar, sam­kvæmt gild­andi áætl­un­um, mun fjöldi skólaára hafa liðið hjá án þess að nokk­urt heild­stætt sam­ræmt mat hafi farið fram á hæfni ís­lenskra grunn­skóla­barna.

Samt sem áður var innleiðingu þess flýtt eftir umfjöllun mbl.is og Morgunblaðsins.

Embættismannakerfið dragbítur

Vill Jón Pétur meina að þingið hafi í blindni fylgt ráðleggingum embættismanna hjá sveitarfélögum og í ráðuneytum.

„Það er þetta embættismannakerfi sem hefur leitt okkur í ógöngur,“ heldur hann áfram og kveður Ásthildi Lóu Þórsdóttur menntamálaráðherra hafa sýnt af sér mikið þekkingarleysi í þessari fyrstu umræðu um breytingafrumvarpið.

„Hún viðurkenndi til dæmis að hún hefði ekki rýnt aðalnámskrá sem er grunnur Matsferils [Matsferill er yfirheiti nýja samræmda námsmatsins sem mælt er fyrir um í frumvarpinu], hún hafði greinilega viðað að sér upplýsingum meðan umræðunni vatt fram og svo talaði hún í einhverjum frösum sem hún hefur verið mötuð á, það var engin dýpt í þessu hjá henni, hún stóð bara á gati og hristi höfuðið – það voru nú svo sem viðbrögðin sem ég bjóst við.“

Vill Jón Pétur meina að þingið hafi í blindni fylgt …
Vill Jón Pétur meina að þingið hafi í blindni fylgt ráðleggingum embættismanna hjá sveitarfélögum og í ráðuneytum. mbl.is/Hari

Ásmundur Einar ekkert betri

Bendir hann á að frumvarpið byggi á aðalnámskrá grunnskóla sem sé í algjörum lamasessi.

„Stoðir frumvarpsins eru þar með í lamasessi og svo þekkti ráðherra bara ekkert almennilega hugtökin úr námskránni sem Matsferill byggist á, ég fann það bara á henni og hún sagði það líka í pontu að hún væri svo nýbyrjuð í þessu að hún væri ekkert með þetta alveg á hreinu,“ segir Jón Pétur.

Hann minnir á að frumvarpið sé frá fyrri ríkisstjórn, ráðherra hafi rætt það mikið, „og Ásmundur Einar [Daðason, ráðherra málaflokksins á undan Ásthildi Lóu] var ekkert betri í þessu en hún.“

En hverjar væru leiðir til úrbóta að þínu mati, hvað þarf að gerast svo þetta námsmatsmál komist á lygnan sjó?

„Til dæmis þyrfti að koma upp alvöru samræmdu námsmati, núna hafa skólarnir einhverja þrjátíu daga til að leggja fyrir eitthvað sem kallast samræmt námsmat,“ svarar Jón Pétur.

„Svo er það lagt fyrir 1. október í einum skóla og 3. í öðrum og svo 10. og svo koll af kolli og þetta býður hættunni heim að það kvisist út hvert námsmatið er. Svo á að meta skóla, sveitarfélög og landshluta eftir þessum niðurstöðum sem fást úr þessu svokallaða samræmda námsmati sem er náttúrulega ekkert samræmt ef það er tekið á ólíkum tímum og hætta á að berist út hverjar spurningarnar eru.“

Samræmingin felist í leyndinni

Segir Jón Pétur samræminguna felast í því að próftakar viti ekki á hvaða spurningum þeir eigi von.

„Þegar þú ert með próf í grunnskóla og ert að prófa þrjá hópa í þremur tímum í röð vita margir í þriðja hópnum hvernig prófið er, það er enginn vandi að taka mynd af prófinu á síma og koma því einhvern veginn áfram,“ segir hann.

Bendir hann að lokum á að menntamálaráðherra hafi ekki svarað þeim spurningum, sem „fóru eitthvað á dýptina“ við umræðuna í þinginu.

„Mér fannst þetta bara mjög sérstakt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert