Segir útilokað að enginn hafi orðið fyrir tjóni

Páll Ágúst Ólafsson er lögmaður mannsins sem missti starfsleyfi sitt …
Páll Ágúst Ólafsson er lögmaður mannsins sem missti starfsleyfi sitt vegna uppflettinganna og getur ekki starfað við fag sitt vegna málsins. Samsett mynd/Colourbox/mbl.is/Hari/Arnþór

Lögmaður manns sem hefur orðið fyrir tekjutapi vegna sviptingar atvinnuréttinda sem flugmaður, í kjölfar ólögmætra uppflettinga trúnaðarlæknis Samgöngustofu í sjúkraskrá hans, segir fullyrðingu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í kjölfar úrskurðar Persónuverndar setta fram gegn betri vitund.

Í yfirlýsingu heilsugæslunnar frá því í gær segir að ekkert tjón hafi orðið og að enginn grunur sé um misnotkun á aðganginum.

Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður mannsins, segir það algjörlega útilokað og ekki standast neina skoðun að af 195.000 uppflettingum sem heilbrigðisstarfsfólk utan heilsugæslunnar hafi verið flett upp í sjúkraskrá með ólögmætum hætti að þá hafi enginn orðið fyrir tjóni.

Greint var frá því í gær að Persónuvernd hefði lagt fimm milljón króna sekt á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna þess að tólf utanaðkomandi aðilar höfðu aðgang að Sögu, sameiginlegu sjúkraskrárkerfi stofnunarinnar. Taldi Persónuvernd vinnslu persónuupplýsinga með slíkum hætti ekki vera heimila.

Páll segir málið hafa hafist vegna kvartana til Persónuverndar og Embættis landlæknis fyrir hönd mannsins. Þar benti hann á að Samgöngustofa væri að misnota aðgang sinn að sjúkraskrá einstaklinga en Samgöngustofa er einn þessara umræddu tólf aðila.

Á meðal annarra fyrirtækja og stofnana auk Samgöngustofu sem höfðu aðgang að sjúkraskránni voru Knattspyrnusamband Íslands, velferðarsvið Reykjavíkurborgar auk ýmissa einkarekinna heilsugæslustöðva.

Í tilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um málið segir að ekkert tjón hafi orðið vegna málsins. Jafnframt segir í úrskurði Persónuverndar að sektarfjárhæð heilsugæslunnar hafi verið ákvörðuð með hliðsjón af því að ekkert tjón hafi orðið vegna ólögmæta aðgangsins. 

Þessu vísar Páll Ágúst alfarið á bug og bendir á að bæði Persónuvernd og heilsugæslan hafi verið upplýst um tjón umbjóðanda síns vegna þessara aðganga. 

Í sjúkraskrárkerfi heilsugæslunnar er að finna 517.429 einstaklinga, lífs og liðna, erlenda sem innlenda. Hins vegar eru ekki heilsufarsupplýsingar um alla umrædda einstaklinga til staðar í grunninum en heilsugæslan áætlar að í kringum 450.000 sjúkraskrár séu til staðar í kerfinu. 

Embætti Landlæknis var tilkynnt um uppflettingu trúnaðarlæknis Samgöngustofu og var …
Embætti Landlæknis var tilkynnt um uppflettingu trúnaðarlæknis Samgöngustofu og var niðurstaða embættisins sú að læknirinn fletti upp í sjúkraskrá mannsins án heimildar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Missti starfsleyfið vegna ólögmætra uppflettinga

Líkt og fyrr segir er Páll lögmaður manns sem varð fyrir atvinnumissi vegna ólögmætra uppflettinga trúnaðarlæknis Samgöngustofu í sjúkraskrá hans. Maðurinn sem Páll Ágúst er lögmaður fyrir starfaði sem atvinnuflugmaður. Fyrir nokkrum árum greindist hann með sjúkdóm sem er tilkynningaskyldur til Samgöngustofu vegna starfa hans. Hann lét umræddan lækni vita af sjúkdómnum og sótti viðeigandi meðferð á heilbrigðisstofnun. 

Eftir meðferðina var maðurinn laus við öll einkenni og segir Páll að með réttu hefði maðurinn átt að fá atvinnuréttindi sín afhend á ný. 

Hann segir hins vegar að Samgöngustofa hafi svipt manninn starfsleyfinu og vísað til gagna úr sjúkraskrá hans sem komu sjúkdómi hans ekki við. Læknirinn hafði því aflað gagna úr sjúkraskránni án heimildar mannsins. 

Segir Páll jafnframt manninn uppfylla þær kröfur sem gerðar eru á heilsufarsvottorði sem atvinnuflugmenn þurfa að uppfylla til að geta starfað sem slíkir. Hins vegar hefur Samgöngustofa ekki viljað gefa manninum starfsleyfi sitt til baka. 

Maðurinn hefur orðið fyrir miklu tjóni vegna þessa og getur hann ekki starfað við fag sitt vegna málsins. 

Líkt og fyrr segir var Embætti Landlæknis tilkynnt um uppflettingu trúnaðarlæknis Samgöngustofu og var niðurstaða embættisins sú að læknirinn fletti upp í sjúkraskrá mannsins án heimildar og varðar það brot á ákvæðum laga um sjúkraskrár nr. 55/2009. 

Í bréfi landlæknis til mannsins, sem mbl.is hefur undir höndum, segir að landlæknir hafi brugðist við brotinu með „viðeigandi hætti.“

Ekkert formlegt leyfi fyrir samningnum

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Samgöngustofa undirrituðu samning um rekstur og sameiningu sjúkraskrár árið 2020 en með samningnum fengu læknar Samgöngustofu aðgang að sjúkraskrákerfi heilsugæslunnar. Í samningnum segir að sjúkraskráin skuli vera í vörslu og ábyrgð heilsugæslunnar. 

Páll vakti athygli heilsugæslunnar á samningnum síðasta vor og benti stofnuninni á það tjón sem umbjóðandi hans hafi orðið fyrir. 

Í svari sem lögfræðingur stofnunarinnar sendi nokkrum mánuðum seinna segir að ekkert formlegt leyfi hafi verið fyrir samningnum. Segir lögfræðingurinn jafnframt að engin gögn hafi legið fyrir hjá heilsugæslunni um að umræddur samningur hafi verið staðfestur eða sendur á Persónuvernd. 

„Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins var á þessum tíma og er enn fullkomlega meðvituð um tjón þessa manns vegna þessa ólöglega samnings þannig að fullyrðing þeirra í yfirlýsingunni í dag er röng og gegn betri vitund þeirra,“ segir Páll en líkt og fyrr segir sagði heilsugæslan að ekkert tjón hafi orðið vegna samningsins. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert