Segir viðskipti við Rapyd ólögleg

Björn segir útibúið á Íslandi alfarið í eigu Rapyd og …
Björn segir útibúið á Íslandi alfarið í eigu Rapyd og enn fremur sé stjórnarformaður þess jafnframt forstjóri Rapyd í Ísrael. Samsett mynd/mbl.is/Hari/AFP/GETTY IMAGES//Eric Thayer

Vegna beinnar þátttöku Rapyd í stríðinu á Gasa mega lögaðilar á Íslandi ekki eiga viðskipti við fyrirtækið samkvæmt úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag.

Þetta segir Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður í aðsendri grein sinni í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir Rapyd þjóðernissinnað ísraelskt fyrirtæki sem hafi stutt hernað Ísraels á Gaza, bæði með orðum og aðgerðum, því komi ekki á óvart að fyrirtækið stundi viðskipti á hernumdum svæðum Ísraels í Palestínu.

Stjórnarformaðurinn forstjóri í Ísrael

Ísraelska fjármálafyrirtækið Rapyd keypti íslenska fyrirtækið Valitor árið 2021 og breytti nafni þess í Rapyd Europe.

Björn segir útibúið á Íslandi vera alfarið í eigu Rapyd og enn fremur sé stjórnarformaður þess jafnframt forstjóri Rapyd í Ísrael.

Rapyd taki beinan þátt í manndrápum á Gaza

Björn segir fyrirtækið einnig hafa tekið beinan þátt í hernaðinum á Gaza, það vinni með ísraelska hernum í stríðinu – sem hjálpar- og mannréttindasamtök eins og Amnesty International segi að sé hreint og klárt þjóðarmorð.

Bein þátttaka Rapyd miði að því að viðhalda og styrkja hernám Ísraels á hernumdu palestínsku landi og sé því augljóst brot á úrskurði Alþjóðadómstólsins.

Samkvæmt úrskurðinum beri öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna skylda til að leita allra leiða sem þau hafa yfir að ráða til að binda endi á þetta ólöglega hernám – og þau megi ekki gera neitt sem styður eða styrkir yfirráð Ísraels á hernumdu svæðunum.

Ekki siðferðilega verjandi

Björn bendir á að íslensk fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök eigi lögum samkvæmt að starfa í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og megi því ekki skipta við fyrirtæki sem reka starfsemi á hernumdu svæðunum eins og ísraelska fyrirtækið Rapyd gerir.

Þá segir Björn fleiri góðar ástæður vera til að hætta viðskiptum við Rapyd, eins og vel á fimmta hundruð íslenskra fyrirtækja hafa þegar gert samkvæmt vefsíðunni hirdir.is.

Ein þeirra sé að töluverður fjöldi fólks frá Palestínu hafi fengið hæli á Íslandi á undanförnum árum og sé nú hluti af samfélaginu.

Það sé ekki siðferðilega verjandi að bjóða þessu fólki upp á að eiga viðskipti við opinberar stofnanir, félagasamtök eða fyrirtæki á Íslandi í gegnum ísraelska fyrirtækið Rapyd sem taki beinan þátt í stríði gegn fjölskyldum og vinum þeirra á Gaza.

Lesa má nán­ar um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert