Styrkjamálið rannsakað í þingnefnd

Frá setningu Alþingis fyrr í þessum mánuði.
Frá setningu Alþingis fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Karítas

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag hyggst Vilhjálmur Árnason formaður nefndarinnar leggja til að nefndin stofni til frumkvæðismáls um styrkjamálið svonefnda.

Með því mun nefndin taka fyrir ákvörðun Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að fara ekki fram á endurgreiðslu framlaga úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka, sem ekki uppfylltu lagaskilyrði þeirra.

Málið varðar fyrst og fremst Flokk fólksins, sem tekið hefur við 240 milljónum króna af opinberu fé í trássi við lög, en einnig Vinstri græna, sem ekki uppfylltu lagaskilyrðin fyrr en í fyrra.

„Þetta á ekki að taka mjög langan tíma, kannski mánuð,“ segir Vilhjálmur í samtali við blaðið. Fá þurfi fjármálaráðherra og fleiri gesti á fund nefndarinnar.

„Í framhaldinu stendur svo til annað frumkvæðismál þessu skylt, sem varðar framkvæmd og framfylgd laga um stjórnmálasamtök.“

Morgunblaðið sat fyrir ráðherrum að loknum ríkisstjórnarfundi í gær og spurðist fyrir um nýjar upplýsingar, sem blaðið greindi frá í gær, um að Flokkur fólksins hefði fengið leiðbeiningu stjórnvalda um lögmæta skráningu, þvert á það sem áður hefur verið haldið fram.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um þessa leiðbeiningu fyrir ári, þrátt fyrir að hún hafi undirritað tilkynningu flokksins til Skattsins og starfsmaður flokksins, sonur hennar, átt í bréfaskriftum um leiðbeininguna.

„Það var ekki ég, það eru starfsmenn Flokks fólksins, ég er ekki innanbúðar þar,“ sagði Inga.

Áður hefur hún sagt að sér hafi fyrst orðið kunnugt um skráningarvandann í fyrrahaust.

Daði Má Kristófersson fjármálaráðherra sagði við sama tækifæri að hann teldi ekki að þessar upplýsingar frá Skattinum breyttu neinu um að fjármálaráðuneytið hefði ekki veitt flokknum leiðbeiningu. Það hefði því borið, óháð leiðbeiningu annarra stjórnvalda. Ráðuneytið hefði brugðist, engir aðrir. Flokkurinn hefði verið í góðri trú um viðtöku fjárins, þrátt fyrir að Inga Sæland hefði játað að hafa vitað betur.

Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert