Samninganefndir allra aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, ríkis og sveitarfélaga munu hittast á fundi hjá ríkissáttasemjara klukkan 15 í dag, en það var Kennarasambandið sem óskaði eftir fundinum.
Þetta staðfestir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
Hann segir þó ekki eiga að lesa of mikið í það þó annar deiluaðilinn óski eftir fundi. Það þýði ekki endilega að fólk sé tilbúið að gefa eftir af sínum kröfum eða koma til móts við hinn aðilann með einhverjum hætti.
Spurður hvort óformleg samtöl síðustu daga hafi hugsanlega skilað árangri og það sé komin upp ný staða, segist hann óttast að svo sé ekki.
„En aðilarnir töldu rétt að hittast og ég bara fagna því,“ segir Ástráður.
„Þeir eru að flauta af stað nýjan verkfallaballett, þannig það er eins og það er.“
Aðspurður hvort hann hafi sjálfur séð einhverja nýja fleti á samtalinu segir Ástráður:
„Ég hef séð alls konar fleti en þeir hafa ekkert endilega allir runnið ljúflega niður hjá aðilunum.“
Formaður Kennarasambandsins hefur sagt að það þokist betur í viðræðum þegar verkföll eru yfirvofandi eða skollin á, er það þín reynsla?
„Nei, það er ekki mín reynsla.“
Síðasti formlegi samningafundur leik-, grunn- og tónlistarkennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram á mánudaginn fyrir rúmri viku, en þá voru allir sammála um að ekki væri tilefni til að boða til nýs fundar, eins og staðan var. Óformleg samtöl hafa hins vegar átt sér stað.
Samninganefndir Félags framhaldsskólakennara og ríkisins hafa hins vegar fundað síðustu daga. Þar hafa meðal annars verið mótaðar lausnir sem snúa að afmörkuðum þætti kjarasamningsins er varða eingöngu framhaldsskólakennara.
Verkföll skella á í fimm framhaldsskólum á föstudag hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma, en ótímabundin verkföll hafa verið boðuð í Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Borgarholtsskóla, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga.
Þá hefjast ótímabundin verkföll í öllum 22 leikskólum Kópavogsbæjar þann 3. mars næstkomandi og á sama tíma hefjast tímabundin verkföll í grunnskólum Ölfuss, Hveragerði og á Akranesi, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.
Þá stendur nú yfir atkvæðagreiðsla um ótímabundin verkföll í öllum leikskólum Hafnarfjarðar og Fjarðarbyggðar.