Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir nýlega yfirlýsingu Bandaríkjaforseta, þar sem hann kvaðst leggja að jöfnu tolla og virðisaukaskatt, vera umræðu sem hann skilji ekki fyllilega. Segir hann tolla og virðisaukaskatt vera tvo ólíka hluti.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tjáði sig um tollamál á samfélagsmiðlinum X á mánudaginn. Kom það í kjölfar yfirlýsinga um mikla tolla á nágrannaríkin Kanada og Mexíkó og Kína, sem og á lönd í Evrópu.
Kvaðst hann leggja virðisaukaskatt á innfluttar vörur að jöfnu við tolla, virðisaukaskatturinn sé enn harðari refsing ef eitthvað.
„Að senda varning, vöru eða eitthvað, hverju nafni sem nefnist, gegnum annað land í því augnamiði að skaða Bandaríkin með óheiðarleikann að vopni verður ekki liðið,“ skrifaði Trump.
Á Íslandi er notast við virðisaukaskattskerfi, wina og víðast hvar í Evrópu, Asíu, Suður-Ameríku, Kanada og Mexíkó. Bandaríkin, wina og nokkur lönd í Miðausturlöndunum og Afríku og í nokkrum fjölda eyríkja, notast hins vegar við söluskatt.
„Þetta er ekki sambærilegt tollum,“ segir Daði spurður um þessa afstöðu Trumps til virðisaukaskatts. „Þetta leggst á allar vörur,“ segir hann um virðisaukaskatt til aðgreiningar frá tollum.
Til frekari útskýringa segir Daði að meðan hægt sé að beita tollum á mjög afmarkaða vöruflokka frá mjög afmörkuðum stöðum, þá sé virðisaukaskattur almennur skattur sem ekki sé hægt að beina með sambærilegum hætti að vöruflokkum eða upprunalöndum. „Þú getur ekki beitt honum með pólitískum hætti líkt og þú getur gert með tollum.“
„Þetta er ekki umræða sem ég skil fyllilega,“ segir Daði að lokum þegar hann er spurður nánar út hvort það fáist staðist að hægt sé að leggja þetta tvennt að jöfnu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði í gær við mbl.is að íslensk yfirvöld væru að skoða ummæli Trumps, en að hún vildi tala varlega þegar kæmi að þessum málum. Sagði hún yfirvöld skoða ýmsar sviðsmyndir sem gætu komið upp í viðskiptum „á milli þessara tveggja vinaþjóða“.
Ítrekaði hún þá að samskipti ríkjanna hefðu verið farsæl fram til þessa og að hún vonaðist til þess að engin breyting yrði þar á.
Benti Þorgerður jafnframt á að vöruskiptajöfnuður Íslands og Bandaríkjanna væri jákvæður Bandaríkjunum í vil og að slíkt hjálpi Íslandi í þessum málum.