Oddvitar Samfylkingar, Flokks fólksins, Sósíalista, Pírata og Vinstri grænna hafa náð saman um myndun nýs meirihluta.
Þetta staðfestir Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is.
Vísir greinir frá því að Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verði næsti borgarstjóri og hefur það eftir öruggum heimildum.
Föstudaginn 7. febrúar sleit Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins, meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn.
Ertu spennt fyrir komandi meirihlutasamstarfi?
„Já, bara mjög spennt. Það er spennandi að taka við nýjum áskorunum,“ segir Helga.
Oddvitar flokkanna eru í þessum töluðu orðum að ræða við sína borgarstjórnarflokka og bakland til að kynna fyrir þeim nýjan meirihluta. mbl.is hefur ekki náð í neinn borgarfulltrúa í verðandi meirihluta borgarstjórnar nema Helgu.
Hún segir að Flokkur fólksins, Vinstri græn og Sósíalistar séu ekki að ganga inn í fallinn meirihluta heldur sé þetta „algjörlega nýr meirihluti“ með nýja ásýnd.
Á þessum tímapunkti er hún ekki til í að ræða áherslur nýs meirihluta.