Ekkert kvikuhlaup í kjölfar skjálfta

Það gæti dregið til tíðinda á Reykjanesskaga á næstu dögum.
Það gæti dregið til tíðinda á Reykjanesskaga á næstu dögum. mbl.is/Hákon

Ekkert kvikuhlaup kom í kjölfar þriggja skjálfta sem urðu á áttunda tímanum við Sund­hnúkagígaröðina. Á næstu dögum eða vikum gæti þó farið að draga til tíðinda.

Þetta seg­ir Krist­ín Elísa Guðmunds­dótt­ir, náttúruvársérfræðingur á Veður­stofu Íslands, í sam­tali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld þá urðu skjálftar á milli klukkan 19.46 og 19.47. Í kjölfar sagði Veðurstofan að verið væri að kanna hvort að kvikuhlaup væri mögulega að hefjast.

„Það fór ekkert kvikuhlaup af stað

„Þetta er spurning hvort að hann [kvikugangurinn] hafi verið að hósta aðeins en svo hefur ekkert gerst meira,“ segir Kristín.

„Það fór ekkert kvikuhlaup af stað þarna.“

Hún segir að þegar svona gerist þá séu menn á Veðurstofunni á tánum „því þetta byrjaði á svipuðum stað og kvikuhlaupin hafa byrjað“.

Getur dregið til tíðinda á næstu dögum

Sjö­unda eld­gos­inu á Sund­hnúkagígaröðinni frá því í des­em­ber 2023 lauk 9. des­em­ber og nú hefur landris náð svipuðu marki og fyr­ir síðasta gos í nóv­em­ber.

„Við erum komin á þann stað að það er líklegt að það fari að draga til tíðinda næstu daga eða vikur. En það er ákveðin óvissa í þessu,“ segir Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert