Nýrri ríkisstjórn hefur gengið brösulega að umgangast valdið, það sést á fleiru en styrkjamálinu einu. Styrkjamálið snúist hins vegar fyrst og fremst um að það gildi ekki önnur lög og reglur um stjórnmálamenn en aðra landsmenn.
Þetta kemur fram í máli þeirra Bergþórs Ólasonar, þingflokksformanns Miðflokksins, og Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þeir eru gestir Dagmála í dag.
Bergþór minnir á fjaðrafokið í kringum þingflokksherbergi sjálfstæðismanna, um það hafi verið fjallað samkvæmt gildandi reglum, en þegar niðurstaðan hafi verið Samfylkingunni á móti skapi, hafi reglunum einfaldlega verið breytt í krafti aflsmuna.
Nú þegar fjallað er um ofgreidd framlög til Flokks fólksins leggist stjórnarliðið í leiðangur til þess að komast að því að hann þurfi ekki að endurgreiða þau. Þetta gerist á sama tíma og það sé fólk úti um allan bæ, sem ríkið rukki fyrir ofgreiddar bætur síðasta árs. Eitt verði yfir alla að ganga.
„Við stjórnmálamennirnir getum ekki skilið við þetta mál þannig að það séu sérreglur fyrir okkur,“ segir Bergþór.
Vilhjálmur vonast til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis komist að sameiginlegri niðurstöðu í umfjöllun sinni um styrkjamálið, það sé ákaflega mikilvægt að stjórnmálamenn sýni að þeir geti tekið á málefnum, sem varða þá sjálfa, af sanngirni og ósérhlífni.
Hann vonast til þess að sem flestir fundir nefndarinnar um styrkjamálið geti verið opnir, eftir því sem þingsköp leyfa gagnvart gestum nefndarinnar. Bergþór segist þegar hafa fundið fyrir þrýstingi almennings um að fundirnir verði fyrir opnum tjöldum.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn allan hér: