Flugstjóri áætlunarflugvélar Icelandair frá Egilsstöðum til Reykjavíkur ítrekaði fyrir farþegum að kynna sér neyðarútganga áður en hann lenti á Reykjavíkurflugvelli. Vindátt er sögð hafa verið óhagstæð þennan dag og notast hefði þurft við þær flugbrautir sem lokað var að kröfu Samgöngustofu vegna trjáa í Öskjuhlíð sem sögð eru bitna á aðflugi flugvéla.
Þetta kemur fram í frétt í Austurfréttar.
Í fréttinni er rætt við tvo farþega sem sögðu aðflug og lendingu hafa verið óþægilega. Flugvélin hafi vaggað óþægilega mikið í öllu aðfluginu og velflestir farþegar hallað sér fram og haldið fast í sætisbök fyrir framan sig í margar mínútur fyrir lendinguna.
Eins segir að lending með sjúkling úr sjúkraflugi skömmu síðar hafi verið óþægileg og að flugmenn hafi rökrætt sín í milli hvort þeir ættu að fara beint til Keflavíkur með sjúklinginn í stað þess að lenda á Reykjavíkurflugvelli.
Í Keflavík hafi verið hægt að lenda beint á ríkjandi vindstefnu, fremur en að taka áhættu í sterkum hliðarvindi á Reykjavíkurflugvelli.
„Úr varð, sökum þess að sjúklingurinn um borð hafði fengið hjartaáfall og var milli heims og helju, að reyna til hins ýtrasta að lenda í Reykjavík,“ segir í frétt Austurfréttar. Þá segir að lending í Keflavík hefði bætt allt að klukkustund við að sjúklingurinn hefði komist undir læknishendur á Landspítala.
Felling trjáa er hafin í Öskjuhlíð en enn eru ein til tvær vikur þar til þeirri vinnu lýkur.