Piltur á sautjánda ári, sem sætir ákæru fyrir hnífstunguárás í miðbæ Reykjavíkur á Menningarnótt, hefur haft ítrekuð samskipti við lykilvitni málsins, sem jafnframt er einn brotaþola og fyrrverandi kærasta ákærða.
Frá þessu greinir ríkisútvarpið, en pilturinn er ákærður fyrir að hafa stungið þrjú ungmenni, þar á meðal sautján ára gamla stúlku, Bryndísi Klöru Birgisdóttur, sem lést af sárum sínum.
Hefur RÚV heimildir fyrir því að ákærði hafi verið í samskiptum við brotaþolann og vitnið síðan fyrir áramót þrátt fyrir gæsluvarðhaldið og hafi auk þess verið virkur á samfélagsmiðlum.
Mælir reglugerð um afplánun sakhæfra barna, númer 533/2015, fyrir um að við vistun barns á vegum barnaverndaryfirvalda skuli þau njóta sömu meðferðar og önnur börn sem á heimilinu dvelja.
Ná réttindi þessi að sögn RÚV til afnota af leikjatölvum sem sumar geti verið nettengdar. Þá hafi brögð verið að því að símum hafi verið smyglað inn í varðhaldsvistarverur.
Greindi fréttaskýringaþátturinn Kompás á Stöð 2 frá því að forráðamenn ákærða hefðu reynt að koma sönnunargögnum í málinu undan, meðal annars með fataþvotti, auk þess sem drápsvopnið hafi verið þrifið og því komið fyrir í bifreið.