Landsréttur hefur þyngt dóm yfir Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur í bátavogsmálinu svokallaða. Er henni gert að sæta sextán ára fangelsisvist.
Þetta kom fram í Landsrétti rétt í þessu.
Dagbjört hafði verið dæmd í 10 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst í fyrra fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem leiddi til andláts sambýlismanns hennar í svokölluðu Bátavogsmáli. Dagbjört áfrýjaði dóminum til Landsréttar.
Héraðsdómur sakfelldi hana fyrir brot á 218. grein almennra hegningarlaga sem felur í sér líkamsárás sem leiðir til andláts. Dagbjört hafði hins vegar upphaflega verið ákærð fyrir brot á 211. grein laganna, en þau fela í sér manndráp af ásetningi.
Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti krafðist saksóknari þess að Dagbjört yrði sakfelld fyrir manndráp frekar en líkamsárás og taldi saksóknari eðlilegt að lengja refsingu hennar í sextán ár frekan en þau tíu sem hún hlaut.
Verjandi Dagbjartar krafðist hins vegar ógildingar á dómi héraðsdóms og sýknu í málinu. Taldi hann ekki sannað að fullu að Dagbjört hefði orðið sambýlismanni sínum að bana og benti hann á að dómskvaddur matsmaður hefði ekki talið að aðrar dánarorsakir væru útilokaðar. Til vara krafðist hann mildari refsingar.
Brotið sem Dagbjört var ákærð fyrir og sakfelld fyrir í héraði snýr að því að hún hafi dagana 22. og 23. september árið 2023 beitt sambýlismann sinn alvarlegri líkamsárás sem leiddi til andláts hans. Lýsti saksóknari fyrir Landsrétti atvikinu sem „langvinnri og hrottalegri árás“.
Dagbjört heyrist í símaupptökum saka sambýlismann sinn um að drepa hundinn sinn, hinn 14 ára Kókó, með því að kæfa hann, kyrkja og hálsbrjóta. Reyndar benda gögn málsins til þess að sambýlismaðurinn hafi ráðið Kókó af dögum.
Í símaupptökunum frá því um degi fyrir andlátið virðist hún ýja að því að ætla að svara í sömu mynt. Réttarkrufningar bentu til þess að hann hefði líklega drepist vegna köfnunar vegna ytri kraftverkunar á hálsinn og efri öndunarveginn, þ.e. kyrkingar.
„Þú ert búinn að kála hundinum mínum,“ heyrist í Dagbjörtu segja í einni símaupptöku á meðan Þúsund sinnum segðu já eftir Grafík spilast lágt í bakgrunni. Þar kveðst hún ætla sýna brotaþola „sömu væntumþykju“ og hann mun hafa sýnt Kókó.
Á fleiri upptökum heyrast högghljóð og kvein frá brotaþolanum. Brotaþolinn segir á annarri upptöku að Dagbjört sé „búin að berja sig sundur og saman í andlitinu“.
Niðurstaða héraðsdóms var þó líkt og fyrr segir að það hefði ekki vakað fyrir Dagbjörtu að bana sambýlismanni sínum í aðdraganda andláts hans. Taldi dómurinn að draga mætti þá ályktun að Dagbjört hafi í fyrstu beitt manninn alvarlegum líkamsmeiðingum í trausti þess að hann myndi lifa það af.
„Á hinn bóginn var ákærðu ljóst hversu bágborið ástand hans var og henni gat ekki dulist að áframhaldandi líkamsmeiðingar, sér í lagi á viðkvæmum líkamspörtum eins og hálsi, væru líklegar til að bana brotaþola,“ segir í dómi héraðsdóms. Þá var tekið fram að ekkert benti til þess að Dagbjört hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu og telst hún því sakhæf í skilningi laga.
Í dómi héraðsdóms segir jafnframt að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að Dagbjört hafi með háttsemi sinni gerst sek um alvarlegt ofbeldisbrot og atlögu gegn manninum sem gat ekki varið sig.
„Til refsiþyngingar horfir að háttsemi ákærðu var sprottin af grimmúðlegum hvötum. Ákærða á sér engar málsbætur en hún hefur ekki með nokkrum hætti sýnt merki um iðrun svo trúverðugt sé,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Var Dagbjörtu í héraði einnig gert að greiða tveimur börnum mannsins samtals fjórar milljónir í miskabætur.