„Með athyglisverðustu svörum sem ég hef séð“

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir Ingu Sæland verða að venjast …
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir Ingu Sæland verða að venjast siðum þingsins. mbl.is/Eyþór

Öll spjót stóðu á Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun, en fjórum af fimm fyrirspurnum var beint að henni. 

Meðal þeirra sem beindu fyrirspurn sinni að Ingu var Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. Varðaði fyrirspurnin styrkjamálið svokallaða og kom hún í kjölfarið á fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um starfsemi Flokks fólksins, en sú fyrirspurn tengdist einnig styrkjamálinu.

Sagði Bergþór svör Ingu við fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, vera „með athyglisverðustu svörum sem ég hef séð ráðherra veita hér, eða ekki veita, í þessum fyrirspurnatímum síðan ég kom hér inn á þing.“

„Ég vil bara fyrst taka nokkrar sekúndur af tíma mínum að segja við hæstvirtan félagsmálaráðherra: Þetta eru ekki dylgjur sem eru bornar hér fram. Þetta eru bara spurningar. Þessi liður, tvisvar sinnum hálftími í viku er til þess ætlaður að stjórnarandstaða geti borið spurningar fyrir ráðherra og hæstvirtur ráðherra verður að venjast því og fyrsti tíminn er bestur til þess.“

Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, þing­flokksmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, hafði beint fyr­ir­spurn sinni að Ingu og sagt það full­ljóst að krafa lag­anna um skrán­ingu stjórn­mála­flokka sé ekki forms­atriði, held­ur mik­il­væg­ur ör­ygg­is­ventill fyr­ir starf­semi stjórn­mála­flokka og lýðræðis­lega stjórn­ar­hætti.

„Ég þakka hjart­an­lega fyr­ir hátt­virt­um ráðherra fyr­ir síðari fyr­ir­spurn, sem lykt­ar óneit­an­lega af hrút­spungafýl­unni sem flæðir úr Há­deg­is­mó­um,“ var svar Ingu Sæland, í kjölfar umræðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert