Neydd í vændi og reynt að drepa hana

Konan er sögð hafa verið neydd til vændisiðkunar.
Konan er sögð hafa verið neydd til vændisiðkunar. Ljósmynd/Colourbox

Afrísk kona sem hafði fengið alþjóðlega vernd á Ítalíu fær efnislega meðferð á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á Íslandi eftir úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis.

Er þar með ógildur úrskurður kærunefndar útlendingamála sem neitaði að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til umfjöllunar.

Segir að sérstakar ástæður liggi þar að baki en fyrrverandi kærasti konunnar hlaut tíu ára fangelsisdóm eftir að hann reyndi að drepa hana. Konan ber sjáanlega áverka eftir árásina og dvaldi á spítala í hálft ár eftir hana.

Að sögn hennar hefur hún ítrekað mátt sæta líflátshótunum frá fyrrverandi kærasta sínum og aðilum tengdum honum sem sagðir eru í glæpasamtökum.

Þá var konan neydd í vændi á unglingsárum og fram á fullorðinsár en eftir að hún neitaði að gera það var henni misþyrmt líkamlega og kynferðislega auk áðurgreindrar árásar.

Kvaðst konan óttast það að snúa aftur til Ítalíu sökum þess að einhverjir vildu hana feiga þar í landi.

Sætti kynfæralimlestingum 

Konan á ungt barn fætt árið 2023 og samkvæmt vitnisburði félagsþjónustunnar glímir konan við áfallastreituröskun eftir grófa líkamsárás og eru uppi efasemdir um að henni sé fært að sjá um barn sitt. Barnavernd Reykjavíkur hefur af þeim sökum aðkomu að málinu.

Konunni hafði áður verið synjað um efnislega meðferð sökum þess að hún hafði þegar fengið alþjóðlega vernd til fimm ára á Ítalíu, eða til ágúst árið 2024. Konan sótti um alþjóðlega vernd hér á landi í júlí árið 2023.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Karítas

Konan flúði heimaland sitt sextán ára gömul og segir líf sitt hafa verið erfitt. Meðal annars sætt kynfæralimlestingum.

Hún flúði til Ítalíu en þar hafði kærasti hennar upp á henni og þröngvaði sér inn í líf hennar.

Hafi ríka þörf fyrir að búa við öryggi 

Segir í niðurstöðu héraðsdóms að ótvírætt sé að konan hafi sætt ofbeldi og að henni stafi hætta af því að yfirgefa landið. Ekki síst beri að horfa til þess að konan hafi verið neydd til vændis og að hún þurfi að búa við öryggi og vernd á meðan hún vinnur úr afleiðingum áfalla.

Niðurstaða kærunefndar er því sú að ógilda niðurstöðu kærunefndar úrskurðarmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert