Rúta frá ferðaþjónustufyrirtækinu ME travel skildi eftir sig för í grasflöt við hið sögufræga hús Höfða í Borgartúni. Bílstjóri hugðist snúa rútunni við en lenti í sífellu í því að hjól sukku ofan í grasið.
Úr varð að ökumaður ákvað að fara lengra og lengra út á flötina með þeim afleiðingum að frekari för mynduðust í grasinu. Lögregla var kölluð til og er hún á svæðinu.
Framkvæmdastjóri segir að reynsluleysi bílstjóra hafi spilað inn í.
„Nýr bílstjóri, ung stúlka, var við stjórnvölinn og ætlaði að snúa við, en sökk niður vegna þess að jörðin er blaut. Það er rosalega þröngt fyrir rútur og ef þú ætlar að snúa við þá er það mjög erfitt. Borgin er búin að þrengja svo rosalega að öllu. En það breytir því ekki að við berum ábyrgð á þessu og komum til með að bæta allt það tjón sem þarna varð á grasinu,“ segir Ásmundur Einarsson, framkvæmdastjóri hjá ME travel.