Segir svör ráðherra rýr og röng

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra, og Hildur Sverrisdóttir …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra, og Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins tókust á í þinginu í dag. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra, brást ókvæða við óundirbúinni fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur í þinginu í dag.

Fyrri fyrirspurn Hildar laut að styrkjamálinu og landsfundarleysi Flokks fólksins, en hún fékk að eigin sögn rýr og röng svör frá ráðherra.

Mikilvægur öryggisventill

Í fyrri fyrirspurn sinni sagði Hildur það fullljóst, af markmiðum laga um starfsemi stjórnmálasamtaka og tilgangsskilyrða fyrir úthlutun ríkisstyrkja, að krafa laganna um skráningu stjórnmálaflokka hjá Skattinum væri ekki formsatriði, heldur mikilvægur öryggisventill fyrir starfsemi stjórnmálaflokka og lýðræðislega stjórnarhætti.

Hildur sagði lög um starfsemi stjórnmálasamtaka hafa það að markmiði að efla lýðræðisleg vinnubrögð og gagnsæi í störfum stjórnmálasamtaka, tryggja sjálfstæða og lýðræðislega starfsemi slíkra samtaka og óheftan aðgang almennings að virku starfi þeirra.

„Með því er, eins og segir í lögunum, betur tryggt að unnt sé að viðhafa eftirlit með því að stjórnmálasamtök hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, svo sem um takmarkanir á móttöku fjárframlaga og bann við nafnlausum áróðri,“ sagði hún.

Spurði hún hvort fyrir lægju upplýsingar hjá Skattinum um flokkseiningar Flokks fólksins og hlutverk þeirra, en upplýsinganna er meðal annars krafist til þess að geta fengið skráningu sem stjórnmálasamtök hjá Skattinum.

Flokkurinn uppfyllt öll „meginskilyrði“

Inga svaraði spurningunni ekki en fullyrti að Flokkur fólksins hefði uppfyllt öll „meginskilyrði“ fyrir því að hljóta styrk á hverju ári. Vísaði hún jafnframt til þess að fjármálaráðuneytið, sem greiðir styrkina út, hafi aldrei gert athugasemdir við umsóknir flokksins um styrki.

„Það er nú bara í stuttu máli hægt að segja að það er ekki um nein meginskilyrði að ræða. Þessi skilyrði eru þrjú og þau eru frekar skýr og það má ekki sleppa neinu þeirra,“ sagði Hildur við þessu í seinni fyrirspurn sinni.

Fyrir liggur að Flokkur fólksins uppfyllir ekki öll skilyrðin og hefur þess vegna ekki fengið greiddan styrk í ár, í kjölfar þess að Morgunblaðið afhjúpaði að flokkurinn uppfylli ekki skilyrði laganna.

„Ef þetta er viðhorf hæstvirts ráðherra, af hverju sættir hún sig þá við að flokkur hennar fái ekki greitt fyrir árið í ár? Hvað er þá að vanbúnaði,“ spurði Hildur enn fremur og bætti enn frekar í:

„Ég vil hér einnig í minni síðari fyrirspurn spyrja hæstvirtan félags- og húsnæðismálaráðherra  hvort hún tilkynnti eða gaf það í skyn við hæstvirtan fjármála- og efnahagsráðherra að flokkur hennar myndi ekki endurgreiða styrki þá sem flokkur hennar fékk greidda í trássi við reglur þær sem ég reifaði hér áðan og endurtek að eru frekar skýrar. Og það þá þrátt fyrir að krafa þess efnis myndi berast frá fjármálaráðuneytinu?“

„Getur ráðherra ekki bara svarað fyrirspurninni?“

Inga sagði þá fyrirspurn ráðherra lykta óneitanlega af „hrútspunga fýlunni sem flæðir úr Hádegismóum“. Þess má geta að það stangast nokkuð á við viðhorf fjármálaráðherra sem hefur þvert á móti hælt blaðinu fyrir umfjöllun sína.

Inga lét ekki þar við sitja:

„Það er alveg með ólíkindum dylgjurnar sem hér eru settar fram. Það er með hreinum ólíkindum að þurfa að sitja undir svona dylgjum sem eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Megin andi laganna felur það í sér að það þurfi að uppfylla það að vera stjórnmálaflokkur, það þurfi að uppfylla það að vera með kjörna fulltrúa. Það þarf að uppfylla það að vera hér sem sagt eins og við erum með fulltrúa á Alþingi Íslendinga.

Ég veit ekki eiginlega hvað hv. þingmanni gengur til en það væri kannski betra að það kæmi fram síðar. Hún getur fengið kannski kunningja sinn, Jón Steinar Gunnlaugsson, til að skrifa pistil um það.“

Kallaði þá Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr þingsal, „Getur ráðherra ekki bara svarað fyrirspurninni?“, er Inga gekk úr pontu.

Landsfundarleysi einkamál Flokks fólksins

Hildur spurði Ingu einnig hvaða málefnalegu ástæður væru fyrir því að Flokkur fólksins hefði ekki haldið landsfund á árunum 2022, 2023 og 2024, þegar allir aðrir stjórnmálaflokkar gátu það og gerðu.

„Hvað lýtur að því hvenær Flokkur fólksins heldur landsfund sinn, sem að jafnaði á að vera þriðja hvert ár, kemur bara akkúrat engum öðrum stjórnmálaflokkum við. Við í Flokki fólksins höldum landsfund nákvæmlega þegar okkur sýnist.

Næsti landsfundur verður næstkomandi laugardag og ég bíð bara alla velkomna sem langar til að skoða hið fallega innra starf og hið frábæra starf Flokks fólksins, koma og vera velkomin og þiggja með okkur kaffi og krossant og sjá hvað við erum frábær,“ svaraði Inga.

Fréttin hefur verið uppfærð en það var Bryndís Haraldsdóttir sem kallaði úr þingsal, ekki Hildur Sverrisdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert