Píratar hafa boðað til fundar í höfuðstöðvunum á Hverfisgötu nú í kvöld klukkan átta til þess að kynna nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, sem til stendur að taki formlega við völdum síðdegis á morgun.
Það er stjórn Pírata í Reykjavík (PíR) sem boðaði til trúnaðarfundar með félögum sínum með skömmum fyrirvara til þess að gera grein fyrir hinum nýja meirihluta fimm flokka í borgarstjórn: Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks, Vinstri grænna og Flokks fólksins.
Fundurinn hefst á Hverfisgötu 39 kl. 20.00.
Borgarfulltrúar Pírata, þeir Dóra Björt Guðjónsdóttir, Alexandra Briem og Magnús Davíð Norðdahl, munu kynna samstarfið, helstu áhersluatriði þess og sitja fyrir svörum, en í framhaldinu verður boðað til félagsfundar til að ræða borgarmálin ofan í kjölinn.
Óljóst er að hversu miklu leyti verkaskipting flokkanna fimm verður kynnt á þessum fundi Pírata, en á hinn bóginn liggja þegar fyrir fyrstu tillögur tilvonandi meirihluta fyrir á dagskrá borgarstjórnar á morgun. Umræður um þær gætu orðið fjörugar, en af þeim að dæma hafa Píratar þurft að gefa talsvert í lykilmálum sínum á borð við íbúalýðræði.