Sveitarfélögin fá frest: Verkföll standa

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Árni Sæberg

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur óskað eftir fresti til hádegis  til að taka afstöðu til innanhústillögu sem ríkissáttasemjari lagði til í kjaradeilu kennara um klukkan fjögur í gær.  

Þetta staðfestir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is. 

Formleg afstaða kennara til þeirrar beiðni liggur ekki fyrir, en sjálfur gerir Ástráður ekki athugasemdir við að samþykkisfrestur verði lengdur. 

Uppfært klukkan 23.57:

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, staðfestir við mbl.is að kennarar hafi samþykkt beiðnina um frestinn. 

Uppfært klukkan 00.04:

Verkföll kennara í framhaldsskólum standa, en í fyrramálið hefjast verkföll í Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri, Verk­mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri, Borg­ar­holts­skóla, Verk­mennta­skóla Aust­ur­lands og Fjöl­brauta­skóla Snæ­fell­inga. 

Þá hefst einnig verkfall í tónlistarskólanum á Akureyri á morgun.

Beiðnin kom rétt áður en frestur rann út

Ríki og sveitarfélög fengu frest til klukkan tíu í kvöld til að taka afstöðu til innanhústillögunnar, en beiðni um lengri samþykkisfrest kom frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga rétt áður en fresturinn rann út. Hvort lengri frestur verði gefinn er háð samþykki samninganefndar Kennarasambands Íslands.

Kennarar hafa þegar staðfest innanhústillögu ríkissáttasemjara, en afstaða ríkisins liggur ekki fyrir.

Sveitarfélögum hefur ekki hugnast forsenduákvæði

Samþykki allir deiluaðilar tillöguna er hún ígildi kjara­samn­ings til fjög­urra ára, sem felur þó í sér forsenduákvæði, sem gerir kennurum kleift að segja upp samningnum á tímabilinu við ákveðnar aðstæður. En kennarar hafa gert kröfu um slíkt ákvæði.

Formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur hins vegar sagt að þeim hugnist ekki að hafa slíkt uppsagnarákvæði inni í samningum, enda sé verið að bjóða umtalsverðar launahækkanir.

Fyrr í kvöld þegar Ástráður var spurður út í það hvort innanhústillagan tæki á því þrætuepli sagði hann tillöguna byggða á sömu grunnhugmyndum og fyrri tillögu sem lögð var fram í lok janúar, en hún væri frábrugðin í ákveðnum atriðum. Hann gat þó ekki farið út í innihaldið í smáatriðum.

Tillagan sem lögð var fram í lok janúar byggði á því að deilan um jöfnun launa á milli markaða yrði leyst með virðismati á störfum kennara. Ríki og sveitarfélög samþykktu þá tillögu en kennarar ekki. Gerðu þeir þá kröfu um frekari launahækkanir og forsenduákvæði í samningnum. Hingað til hafa samningar strandað á þessum atriðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert