Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, telur að Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verði góður borgarstjóri. Hún segir að verðandi meirihluti verði lengra til vinstri en Viðreisn hugnist.
Þetta kemur fram í samtali hennar við mbl.is.
Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, staðfesti í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að oddvitar Samfylkingar, Flokks fólksins, Sósíalista, Pírata og Vinstri grænna hefðu náð saman um myndun nýs meirihluta.
Þórdís kveðst fegin yfir því að það sé komin endanleg niðurstaða í viðræðurnar og segir að flestir oddvitarnir í verðandi meirihluta séu reynsluboltar.
„En þetta er svolítið vinstrisinnað fyrir minn smekk og okkur í Viðreisn. Við eigum eftir að skoða hvernig málefnasamningurinn verður og hvernig verkin verða og fylgjast með,“ segir Þórdís.
Sósíalistar og Vinstri græn eru tveir vinstrisinnuðustu flokkar landsins. Spurð hvort að hún hafi áhyggjur af því að verðandi meirihluti sé of langt til vinstri segir Þórdís að það verði að koma í ljós.
Hún nefnir að Viðreisn hafi áður verið í meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum.
„Núna eru Sósíalistar komnir inn og þess vegna hugðum við ekki að því að fara með í þessar meirihlutaviðræður. Okkur fannst þetta svolítið vinstrisinnað. Ég er kannski svolítið glöð yfir því að það er bara eitt og hálft ár eftir þangað til að það kemur að nýjum kosningum. Þá getum við tekið púlsinn aftur og stöðuna,“ segir Þórdís og bætir við:
„Auðvitað eru fullt af hugmyndum sem Sósíalistar hafa verið með sem ég hef miklar áhyggjur af, en hvort að þeir hlutir séu í málefnasamningum núna veit ég ekki þannig það er erfitt að segja. Ef að það er þá er það mjög mikið áhyggjuefni.“
Spurð hvaða mál Sósíalista valdi henni áhyggjum nefnir hún að Sósíalistar vilji að Reykjavíkurborg láti félagsbústaði ráðast í byggingaframkvæmdir.
Þar að auki nefnir hún að hún sé fylgjandi sjálfstætt reknum grunn- og leikskólum en að Sósíalistar vilji aðeins skóla á vegum hins opinbera.
Vísir greinir frá því að Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verði næsti borgarstjóri og hefur það eftir heimildum.
„Mér líst bara vel á Heiðu, hún er reynslubolti. Hún er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og er búin að vera lengi í sveitarstjórnarmálum þó hún hafi verið stutt oddviti. Þannig ég held að hún verði afbragðsborgarstjóri þó ég verð örugglega ekki sammála henni alltaf,“ segir Þórdís.
Að lokum segir hún aðspurð að Viðreisn sé tilbúin í nýtt hlutverk í minnihluta.