„Ég var í Samtökum frjálslyndra og vinstrimanna og var blaðamaður hjá málgagni þeirra, Nýju landi-frjálsri þjóð, en þeir sögðust ekki eiga pening. Ég held þeir hafi nú hreinlega verið hræddir um að ég færi mér að voða þarna og ekki viljað að ég færi.“
Með þessum orðum hefst frásögn skálds af merkilegu ferðalagi til stormasams áfangastaðar haustið 1971. Skáldið er Pjetur Hafstein Lárusson, landiðstormasama Norður-Írland, en þangað hélt Pjetur til að skrifa fréttir af væringum sjálfstæðissinnaðra kaþólikka og mótmælenda um það leyti er þessir flokkar tróðu hve mannskæðastar illsakir í því sem á írskri geilísku var í daglegu tali kallað Na Trioblóidí, eða einfaldlega Vandræðin.
Sameiningunni fylgjandi voru sambandssinnar sem að mestu leyti voru svokallaðir Ulster-mótmælendur, afkomendur landnema frá Skotlandi, en mótfallnir þessum ráðahag voru þjóðernissinnaðir írskir kaþólikkar sem dreymdi um sameinað og sjálfstætt Írland – allt landið sem sagt.
Vandræðin stóðu þar til Föstudagssáttmálinn var undirritaður páskana 1998. Blóðugust voru árin kringum 1970 sem líklega var raunveruleg ástæða þess að stjórnendur Nýs lands-frjálsrar þjóðar sögðu skáldinu einfaldlega að þeir ættu ekki krónu með gati til að senda blaðamann til Norður-Írlands.
„En þeir gáfu mér frí,“ rifjar Pjetur upp og hlær við, röddin eilítið hrjúf en viðkunnanleg og auðheyrt snemma samtals að í honum býr frásagnamaður góður. Skáld þurfa að geta sagt frá. Er sá maður skáld sem af engu hefur að segja? Pjetur ræðir síðar í þessu viðtali hverjir geti orðið skáld og hverjir ekki.
Í fríinu labbaði Pjetur sig yfir á Þjóðviljann sem um 1970 stóð styrkum fótum í íslensku þjóðfélagi. „Og ég samdi við þá um að þeir keyptu af mér greinar frá Belfast, sem ég skrifaði reyndar bara þegar ég kom heim,“ segir hann glettinn. Svavar Gestsson og Árni Bergmann ritstýrðu blaðinu á þessum tíma og gátu vel hugsað sér tíðindi af látunum í Norður-Írlandi til að bera á borð fyrir lesendur sína.
„Þannig var að ég fékk far til Cork með Ísborginni sem var síðutogari og einn af fyrstu nýsköpunartogurunum, frá Ísafirði. Honum hafði verið breytt í flutningaskip sem voru bara eins og leigubílar hafsins á þessum tíma,“ segir Pjetur frá.
Þannig að þú hefur bara greitt fargjald og flotið með?
„Neeeeei,“ svarar skáldið og dregur seiminn, kannski að bræða með sér hvort rétt sé að segja frá því hver greiðslan að lokum varð. „Stjúpi minn útvegaði mér farið. Eigandi útgerðarinnar, Guðmundur Anton Guðmundsson, var vélstjóri þarna um borð í þessari ferð. Ég átti að borga eitthvert ákveðið gjald fyrir ferðina,“ segir hann frá.
Ekki var nánar kveðið á um fargjaldið fyrr en Ísborgin var lögst að bryggju í Cork síðla októberkvölds árið 1971. „Öll áhöfnin fór þá beint á krá sem var rétt við kæjann. Ég mátti hins vegar ekki fara í land af því að ég var ekki einn af áhöfninni. Ég þurfti að bíða eftir vegabréfsskoðun daginn eftir. En um borð var vaktmaður og hann segir við mig að það hljóti nú að vera í lagi að ég skjótist á krána svo ég gerði það. Þá var hálftími í lokun og vélstjórinn sagði við mig að ég fengi farið ókeypis ef ég gæti kneyfað þrjár ölkrúsir – sem ég og gerði, þannig að ég borgaði ekkert fyrir ferðina,“ segir Pjetur frá því þegar hann laumaði sér ólöglega í land á Írlandi og borgaði farið með Ísborginni.
Þannig fór um sjóferð þá, eins og máltækið segir.
Morguninn eftir tók hann svo lest til Dyflinnar og nú þarf að fylgja sögunni að þessir atburðir gerðust rétt áður en íslensk stjórnvöld fóru í þá umdeildu framkvæmd að færa fiskveiðilandhelgi sína út í 50 sjómílur.
„Ég fór svo að ganga þarna um götur þá um kvöldið og hitti þá mann sem var vel við skál. Þetta var fullorðinn maður. Hann tekur mig tali og spyr hvaðan ég sé og þegar ég segi honum það þá segir hann við mig: „Þið Íslendingar eigið ekki að færa út í 50 mílur. Þið eigið að færa landhelgina svo langt út að Bretland lendi innan hennar og kúga þessa djöfla.““ Greinilegt var að þarna andaði svellköldu milli Íra, sem ekki vildu sambandið við Bretland, og nágrannalandsins.
Ferðalagið hélt áfram norður á bóginn, næsta lest var til Belfast á Norður-Írlandi. „Ég er þarna 19 ára sveitastrákur...ja, í raun var ég það ekki, en í útlandinu var ég sveitastrákur, og það kemur þarna maður og ber töskurnar mínar inn á járnbrautarstöðina. Ég hélt að þetta væri tóm greiðvikni og tek í höndina á honum og þakka honum innilega fyrir. Þá átti ég náttúrulega að borga honum eitthvað fyrir þetta, ég gerði mér enga grein fyrir því,“ segir Pjetur.
Hann keypti svo gistingu til tveggja vikna á gistiheimili þar sem morgunverður fylgdi og var í góðu yfirlæti. En andrúmsloftið var sérstakt í Belfast á Norður-Írlandi haustið 1971.
„Ég man sérstaklega eftir því þegar ég kom að götu sem breski herinn hafði lokað. Þetta var á mörkum hverfis mótmælenda og kaþólikka og þarna voru mótmælendur sem höfðu ætlað að ráðast inn í hverfið hjá kaþólikkunum,“ rifjar Pjetur upp.
„Ég stend svona svolítið álengdar og sé svo að fólk þarna í hópi er eitthvað að horfa til mín. Að lokum er send til mín kona með sígarettu sem spyr mig hvort ég eigi eld, til að taka upp samræður. Hún býður mér svo í hópinn og ég fer að spyrja hvort þeim finnist ekki skrýtið að hafa þarna erlenda hermenn á götunum hjá sér. Þá segja þeir „Nei, þetta eru ekki útlendingar, þeir eru Bretar eins og við. Kaþólikkarnir eru útlendingar.““
Pjetur játar að þetta hafi honum þótt merkilegt. „Menn, og sérstaklega trúarhatursmenn, hafa alltaf skrifað þessa borgarastyrjöld á kostnað trúarbragða. En það var bara á yfirborðinu. Í raun og veru snerist þetta um peninga. Þarna voru öflugar skipasmíðastöðvar þar sem launin voru um þriðjungi hærri en annars staðar. En það fengu engir vinnu þar nema mótmælendur,“ segir Pjetur.
Hann segir mótmælendahverfin hafa verið snyrtileg einbýlishúsahverfi með hóflega stórum húsum. „Þau voru ekki risastór, bara eins og gengur og gerist hjá siðuðum þjóðum sem nota ekki fermetrafjölda íbúða sem mælikvarða á gildi fólks. Kaþólsku hverfin voru hins vegar fátækrahverfi. Þessar deilur snerust um efnahagsmál og þjóðernismál. Mótmælendurnir, sem kölluðu sig Breta en ekki Íra, voru afkomendur skoskra hermanna sem [Oliver] Cromwell hafði sent til Írlands á sínum tíma, sérstaklega Norður-Írlands, og þeir drápu þar allt kvikt, fengu land að launum.
Þess vegna náðu mótmælendur meirihluta í Ulster á Norður-Írlandi. Þegar ég var þarna var um þriðjungur íbúanna kaþólikkar, tveir-þriðju mótmælendur, en nú eru rúmlega 40 prósent kaþólikkar, þeim hefur fjölgað miklu örar en mótmælendunum.
Hvað þótti íbúum Belfast um að þarna væri kominn blaðamaður frá Íslandi að vitja þeirra, vakti þetta ekki furðu?
„Nei nei, þeir tóku því ósköp vel,“ svarar Pjetur og segir í framhaldinu frá því að þess vegna hafi honum þótt það torkennilegt þegar hann heimsótti knæpur í Belfast, að aðrir gestir færðu sig jafnan frá honum og gættu þess að halda þeirri fjarlægð.
„Meira að segja barþjónarnir létu mig bara hafa ölið og svo fóru þeir,“ rifjar hann upp. Ráðgátan leystist um síðir. „Ég hitti svo þarna tvo eldri menn. Annar þeirra hafði verið sjómaður alla sína hunds- og kattartíð og verið á Íslandsmiðum, aldrei komið þar í land, en leitað þar vars ótal sinnum í fjörðum á Íslandi. Hann var miklu fróðari um landafræði Íslandsstranda heldur en ég,“ segir Pjetur og ekki leið á löngu uns þeir sessunautar hans, sem loksins fengust, spurðu hann óvenjulegrar spurningar.
„Þeir spurðu hvort ég hefði alveg sérstakan áhuga á að láta drepa mig þarna. Ástæðan var sú að ég var í tweed-jakka. Þegar bresku hermennirnir fengu frí máttu þeir vera óeinkennisklæddir. Og þá voru þeir náttúrulega í tweed-jökkum og fóru inn á krárnar. En þá komu IRA-liðar [hermenn Írska lýðveldishersins sem börðust fyrir sameiningu síns lands] og hentu á þá sprengju. Þetta sýndi mér hvað það var gjörsamlega vonlaust fyrir okkur Íslendinga að setja okkur inn í svona fyrirbæri eins og borgarastyrjöld – og styrjaldir yfirleitt. En nú erum við farin að senda afdankaða stjórnmálamenn – og jafnvel börn þeirra – sem friðflytjendur á vegum alþjóðastofnana út í heim – sem náttúrulega hljómar eins og hver annar brandari,“ segir Pjetur sposkur.
Norður-Írlandsdvöl hans fyrir rúmlega hálfri öld spannaði tvær vikur og kvað hann viðmót heimamanna hafa verið mjög gott og þeir verið allir hinir gestrisnustu. Ein forvitnileg saga af norðurírskum tollverði flýtur með hjá Pjetri.
„Á járnbrautarstöðinni í Belfast, þegar ég kom þangað, fór ég í tollinn og vildi ég að tollararnir litu ofan í töskurnar mínar. Ef eitthvað gerðist nálægt mér vildi ég ekki vera grunaður um að hafa komið með sprengiefni,“ segir hann frá.
Tveir tollverðir sátu þar á stöðinni og spiluðu á spil. „Þeir sýndu mér engan áhuga svo ég spurði hvort þeir ætluðu ekki að líta ofan í töskurnar mínar, en þeir tóku því fjarri, nenntu því ekki. Þá benti ég þeim á að ég væri blaðamaður og mér fyndist ágætt að þeir litu ofan í töskurnar mínar, sagði þeim að ég vildi ekki verða grunaður um neitt misjafnt.
Þá skrifaði annar þeirra heimilisfang hjá útlendingaeftirlitinu í Belfast og sagði að ég gæti svo sem farið þangað og látið líta ofan í þessar töskur ef ég hefði áhuga á því, en þeir vildu fá að halda áfram að spila. Svo héldu þeir því áfram og ég fór,“ segir Pjetur og hlær.
Hann bendir á að þarna hafi átökin staðið í nokkur misseri, en fyrst farið að verða alvarleg þetta ár. „Og þeir voru bara ekki búnir að átta sig á því,“ segir Pjetur og við ræðum um stund hvenær átökin á Norður-Írlandi hafi náð hámarki sínu.
„Mig minnir að það hafi verið 1978 sem Jónas Jónasson útvarpsmaður fór til Norður-Írlands og gerði mjög góða þætti fyrir ríkisútvarpið. Hann ræddi við almenning, fólk sem hafði orðið fórnarlömb átakanna, og þetta er eina útvarpsefnið – og fjölmiðlaefnið yfirleitt á Íslandi – sem ég hef séð samið af einhverju viti um fyrirbærið borgarastyrjaldir – sem er ósköp eðlilegt því þetta er svo fjarri okkur að við skiljum þetta ekki,“ segir skáldið.
Hvers eðlis var það efni sem þú seldir Þjóðviljanum?
„Ég hef nú ekki nennt að lesa það,“ er svarið, „það var svona eitthvert sögulegt yfirlit og svo bara það sem ég sá þarna og heyrði,“ heldur Pjetur áfram og segir frá því að eftir heimkomuna hafi hann svo haldið aftur til sinna starfa hjá Nýju landi-frjálsri þjóð. Eins segist hann þó endilega vilja geta þess hér úr því rætt er um keltneskar slóðir.
„Við erum alltaf að þjarka um það hvor sé sterkari í uppruna okkar, norræni stofninn eða sá keltneski, en stór hluti þeirra sem komu hingað voru blanda af norrænum mönnum og keltum, voru það sem sagt áður en þeir komu hingað. Þá voru búnar að vera tvær eða þrjár kynslóðir norrænna manna á Írlandi og Bretlandseyjum svo þeir voru orðnir blandaðir þegar þeir komu hingað,“ segir Pjetur.
Eilíft þrætuepli sé hvernig beri að skilgreina þjóð, „en þeir sem koma frá Bretlandseyjum og eru blandaðir Norðurlandabúum, eru þeir þá ekki bara sérstök þjóð?“ spyr hann.
Pjetur lærði blaðamennsku á skólabekk á sínum tíma, lagði leið sína til Svíþjóðar og hóf þar nám við Norræna lýðháskólann í Kungälv, Nordiska folkhögskolan upp á sænsku. Þangað mætir hann haustið 1972, en skólameistari við lýðháskólann var þá Magnús Gíslason sem áður hafði verið fyrsti skólastjóri Héraðsskólans að Skógum, frá 1949, og síðar framkvæmdastjóri Norræna félagsins á Íslandi. „Hann var mikill og góður skólamaður,“ nefnir Pjetur sérstaklega.
„Þarna voru þrjár deildir, leiklistardeild, almenn deild og svo blaðamannadeild, og við vorum þarna nokkur á blaðamannadeildinni og höfðum sum verið í blaðamennsku áður. Við vorum öll sammála um það að við lærðum ekkert þarna,“ segir Pjetur í léttum dúr, en dregur svo heldur úr þessari niðurstöðu nemendanna.
„Í tímans rás hefur það runnið upp fyrir mér að maður lærði nú ýmislegt – fyrst og fremst að komast inn í umhverfið, þótt Norðlöndin séu auðvitað eitt menningarsvæði hefur hvert þeirra sín sérkenni. Og þetta hefur nú með tímanum síast inn í mann síðan,“ játar hann og blaðamaður vogar sér út á hálan ís með skáld og blaðamann í símanum.
Margir hafa nú verið þeirrar skoðunar að það að fara í háskóla til að læra að verða blaðamaður sé eins og að fara í bókmenntafræði og ætla sér að verða rithöfundur. Þú hlýtur nú að hafa einhverja skoðun á því?
Sú skoðun lætur ekki á sér standa. „Ó já,“ svarar skáldið um hæl, málrómurinn einu stigi hrjúfari en fram til þessa í spjallinu, „og alveg sérstaklega þegar fólk fer í svokallaða skapandi ritlist – sem er andleg gelding,“ heldur hann áfram og þarf ekkert að segja meira. Svarið töluvert styttra en spurningin sem er skáletruð fyrir ofan. Þannig að við færum okkur aftur yfir til Svíþjóðar og raun beint inn í athyglisverðan tíma í samrunasögu Evrópu.
„Þegar ég er í Kungälv, 1972, er verið að kjósa um aðild Noregs og Danmerkur að Efnahagsbandalaginu [Efnahagsbandalagi Evrópu, EBE, einum af þremur forverum Evrópubandalagsins, EB, og að lokum Evrópusambandsins, ESB] og fyrsta vikan hjá okkur í blaðamannadeildinni fór í það að gera úttekt á þessum kosningum. Þarna áttu menn að vinna saman, það átti að vera „samarbete“ að sænskum hætti, en við Íslendingarnir neituðum því, af því að við vildum vinna hver fyrir sig,“ segir Pjetur af náminu.
Þarna segir hann að sjá hafi mátt nokkuð glöggan mun á einstaklingshyggju Íslendinga og skandinavísku samfélagskenndinni. „Auðvitað hafa bæði þessi fyrirbæri nokkuð til síns ágætis, en gallinn við skandinavíska kerfið er sá að þar geta lúðarnir flotið áfram á hinum sem vinna vinnuna. Meinið við íslenska háttinn er að hann býður upp á fúsk, þar geta menn komist upp með það að þykjast vita allt vegna þess að það er enginn annar sem hefur sett sig inn í málið,“ segir Pjetur.
Við snúum talinu að skáldskapnum, enda gaf Pjetur út sína fyrstu ljóðabók, Leit að línum, sama ár og hann fór til náms í Svíþjóð, árið 1972. Fyrst er þó ekki annað hægt en að taka stuttan útúrdúr um uppvaxtarár þess skálds sem hér segir af lífshlaupi sínu.
„Ég ólst upp hjá ömmu minni, Sigurlaugu Lárusdóttur, dóttur Lárusar G. Lúðvígssonar, skósmiðs og skókaupmanns, og meðan afi minn lifði, hjá honum. Ég er alnafni hans. Hann dó þegar ég var á fimmta ári. Þau voru bæði fædd á 19. öld, þannig að í raun og veru er ég 19. aldarmaður og ber því afskaplega takmarkaða virðingu fyrir því sem við köllum samtíma,“ segir Pjetur.
„Eftir því sem einn bernskuvinur minn sagði var ég fæddur gamalmenni, ég var fæddur áttræður og byrjaði ekki að yngjast fyrr en um tvítugt, þannig að ég er í raun gamall maður þegar ég er þarna í Belfast,“ heldur Pjetur áfram og hláturinn kumrar niðri í honum.
Pjetur fæddist þó í Vestmannaeyjum árið 1952, þaðan sem móðurfólk föður hans var upprunnið, fluttist aðeins nokkurra mánaða gamall til Reykjavíkur og þaðan til Akureyrar. „Og þar man ég í raun fyrst eftir mér. Foreldrar mínir skildu þegar ég var tveggja-þriggja ára og þá flutti ég á heimili afa og ömmu og þaðan eru mínar fyrstu minningar.“
Fimm ára flytur Pjetur hins vegar aftur til Reykjavíkur, var fluttur þangað nauðungarflutningum eins og hann orðar það. „Þá var afi dáinn, en amma var krónískur Reykvíkingur, hafði lent í 30 ára útlegð á Akureyri, og ég hef eiginlega ekki enn fyrirgefið suðurferðina,“ segir hann í léttum dúr.
Þú segir að þú berir takmarkaða virðingu fyrir því sem við köllum samtíma, viltu segja mér örlítið frá þeirri lífssýn?
„Já,“ svarar skáldið ákveðið. „Við lifum á yfirborðstímum. Hafi meðalmennska verið ríkjandi hér áður hefur hún jafnvel vikið fyrir botnfallinu,“ heldur Pjetur áfram og tekur sér stutta kúnstpásu – listræna þögn. „Sko, þegar jafnvel forseti þjóðarinnar kemur ekki til minningarathafnar um frelsun Auschwitz af því að hún er í prívat fríi – á meðan Bretakonungur mætir þarna með krabbamein og allir þjóðhöfðingjar aðrir á Norðurlöndum – þá er þetta dæmi um „plebbisma“. Mér leiðist að sletta, en ég hef ekki fundið betra orð yfir þetta. Stjórnmálin bera þess sama merki og bókmenntirnar og listirnar,“ heldur skáldið áfram og blaðamaður skynjar að komið er út á jarðsprengjuakur. Vissara er að sigla fínlega í var.
Talandi um bókmenntir og listir, hvernig kemur það til að þú ferð að yrkja upphaflega? Þú gefur út þína fyrstu ljóðabók fyrir rúmlega hálfri öld.
Ritstörf Pjeturs ná reyndar víðar, hann hefur sent frá sér smásagnasafn, viðtalsbækur og þýtt erlendar ljóðabækur. Þá má ekki gleyma blaðamennskunni.
„Þegar ég var að byrja að yrkja hlakkaði ég mikið til að hitta og kynnast eldri meisturunum, Stefáni Herði, Jóni úr Vör, Jóni Óskari, Sigfúsi Daðasyni og þessum köllum. Ég hélt að þetta væru miklir spekingar,“ byrjar Pjetur. Kynnunum við meistarana fylgdi þó ný vitneskja um kveikju skáldskaparins.
„Þetta voru vel greindir menn, það vantaði ekki. En það var ekki það sem ýtti þeim út í skáldskapinn, heldur að yfirleitt – ekki undantekningarlaust, en yfirleitt – höfðu þessir menn gengið í gegnum eitthvað í sínu lífi, sérstaklega í bernsku, sem þeir gátu ekki rætt. En þeir gátu ort út frá því,“ segir Pjetur og hverfur nú framar í viðtalið þar sem við ræddum bókmenntafræðinám draumskálda.
„Þess vegna er það svo fáránlegt að ímynda sér að hægt sé að kenna fólki að verða skáld,“ segir Pjetur og leggur ósveigjanlega reglu á borðið um aðgengið að Suttungamiðinum – kveikju skáldgáfunnar samkvæmt norrænni goðafræði: „Skáld verður sá einn sem hefur frá einhverju að segja og hefur upplifað einhverjar þær raunir sem hann getur ekki komið frá sér öðruvísi en í skáldskap.“
Þar höfum við það og Pjetur nefnir dæmi máli sínu til stuðnings. Gæti vafalaust nefnt þau mörg.
„Sjáðu Stein Steinarr, hann var svo tilfinningalega heftur eftir að hafa verið niðursetningur, og glímt við fötlun, að þegar Jón Pálsson frá Hlíð dó vildi svo til að það fréttist að kona, hverrar móðir Jón hafði verið kostgangari hjá, vildi komast í jarðarförina hans. En hún var sjómannskona með tvö börn og maðurinn úti á sjó. Hún komst ekki,“ segir Pjetur.
Konan var Unnur Baldvinsdóttir, en með vestfirska skáldinu Steini og Jóni Pálssyni, sem var frá Hlíð undir Eyjafjöllum, tókst vinskapur í bæjarslarkinu í Reykjavík og orti Steinn annálað minningarljóð um Jón sem þótti kaldranalegt, en þaðan má hafa eftir ljóðlínuna „Vort líf, vort líf, Jón Pálsson, er líkt og nóta fölsk.“
Pjetur heldur áfram. „Í stað þess að fara heim til hennar og bjóðast til að líta eftir börnunum á meðan verið væri að jarða Jón, þá bankar Steinn á hurðina hjá henni, hnippir henni út fyrir dyrnar og segir „Það er best að þú farir.“ Hún sagði mér þetta sjálf. Hann gat ekki sýnt henni væntumþykju í orði, en hann gerir það þarna í framkvæmd. Þessi maður orti hins vegar heldur betur og gat tjáð tilfinningar sínar þar. En hann gat það ekki öðruvísi,“ segir Pjetur af hinum vestfirska Aðalsteini Kristmundssyni.
„En nú er plebbisminn orðinn slíkur að nýjasta heildarútgáfan af Steini er bara ljóðin, lausamálsgreinarnar og viðtölin eru ekki með. Þetta eru ómetanleg listaverk sem ofan í kaupin varpa ljósi á samtíma Steins. En þarna hafa einhverjar bókmenntafræðingar hjá Forlaginu fundið út að best væri að sleppa þessu. Og það kalla ég menningarglæp,“ segir skáldið dimmum rómi.
Sjálfur leiddist hann út í róttæknina snemma á ferlinum, „ég er náttúrulega á þeim aldri“, segir hann. „Ég fór að yrkja, meðal annars róttæk og pólitísk ljóð, en alls ekki eingöngu. Svo þegar farið var að notast við sumt af ljóðum mínum í kennslubókum, sem bókmenntafræðingar tóku saman, þá tóku þeir alltaf þessi sósíalrealísku ljóð vegna þess að þeir höfðu lært það uppi í Háskóla að við jafnaldrar mínir værum allrir sósíalrealistar, en engir okkar voru það nema kannski í svona hálfan áratug,“ segir Pjetur glettinn.
Hann hafi að lokum bannað notkun téðra ljóða í kennslubókum. „Ég skipaði þeim að taka önnur og þeir hlýddu því nú í flestum tilfellum,“ heldur hann áfram og tekur fram að hann hafi tekist á við skáldskapinn, sem höfundur, á miklum mótunartímum.
„Áttundi áratugurinn var það og allir þurftu að tjá sig. Ég gekk sjálfur gegnum ákveðna reynslu sem mér fannst betra að koma frá mér gegnum skáldskap en öðruvísi og ég hef svo sem gert það alla tíð. Þannig er nú það,“ segir Pjetur Hafstein Lárusson skáld undir lok fróðlegs viðtals um Norður-Írlandsför fyrir Þjóðviljann, æskuár fyrir margt löngu og lykilinn að sjálfum skáldskapnum.
Jafnaldrar Pjeturs og hans kynslóð hefur af mörgu að segja, innan skáldskapar sem utan. Það hafa fyrri kynslóðir jafnan, enda tók hann sjálfur mest viðtöl við sér eldra fólk á sínum ferli í blaðamennskunni. Endum á því.
„Um aldamótin tók ég allmörg viðtöl fyrir Moggann og síðar Sunnlenska fréttablaðið. Reyndar ræddi ég nær einvörðungu við eldra fólk, bæði til að varðveita andblæ liðinna tíma og eins vegna þess að ég þoli illa sjálfhverfu 68-kynslóðarinnar og þeirra sem síðar hafa markað fjörusandinn hégóma sínum.“
Hneit þar.