Á sérstökum aukafundi skóla- og frístundaráðs í gær var farið yfir almennar aðgerðir í tengslum við ofbeldis- og eineltismál í skólum, ásamt því að upplýsa um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í Breiðholtsskóla. Einnig var farið yfir hvaða lærdóm má draga af því tiltekna máli.
Greint var frá því á mbl.is á þriðjudag að boðað hefði verið til fundarins í ljósi þeirrar miklu umræðu sem spratt upp í kjölfar þess að mbl.is og Morgunblaðið greindu frá alvarlegum ofbeldis- og eineltisvanda í skólanum.
„Við vorum aðallega að kynna það sem við erum að gera í sambandi við ofbeldis- og eineltismál í skólum almennt séð, sem er fjölmargt. Almennt verklag sem gildir þegar upp koma slík mál. Það hefur verið horft á þetta frá ýmsum sjónarhornum, bæði innan skólanna, út frá börnum, út frá starfsfólki og út frá tilkynningum,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs.
„Svo var verið að kynna það sem við erum að gera núna í Breiðholtsskóla þannig ráðið væri upplýst um það sem verið er að gera,“ segir hún jafnframt.
Í samtali við mbl.is á þriðjudag greindi Árelía frá þeim aðgerðum sem meðal annars hefði verið gripið til í Breiðholtsskóla til að taka á vandanum.
Haldnir hefðu verið fundir með foreldrum og starfsfólki, og settur hefði verið inn stuðningur fyrir stjórnendur ásamt því að setja inn stuðningsfulltrúa og kennsluráðgjafa.
Þá hefði hverfismiðstöðin, Suðurmiðstöð, komið að málinu auk landsteymis sem komið var á fót með nýlegum farsældarlögum.
Nú tiltekur hún einnig hegðunarráðgjafa og atferlisfræðinga og svokallað Senter-teymi, en um er að ræða miðlægt viðbragð við áhættuhegðun barna og unglinga í Breiðholti. Úrræðið er samvinnuverkefni lykilstofnana í hverfinu sem bregst hratt við áhættuhegðun og hegðunarvanda.
„Þetta er svona teymi sem kemur inn þegar upp koma erfið mál. Við köllum það 360 gráða teymi því það er bæði frá okkur, barnavernd, samfélagslögreglunni. Þar er verið að koma með úrræði sem snúa að börnunum hverju sinni. Til dæmis geta komið inn í það þjálfarar frá íþróttafélögunum. Það er reynt að „mappa upp“ hvern einstakling fyrir sig.“
Árelía segir þetta lausn sem hafi verið notast við í Breiðholtinu síðustu ár á vegum hverfismiðstöðvarinnar, sem hafi reynst vel.
„Þannig við erum nýta vel öll okkar verkfæri mjög vel og það má upplýsa um að það hefur gengið mjög vel þessa vikuna.“
Spurð hvort aðkoma Senter-teymisins sé nýtilkomin, segist hún ekki alveg vera með það á hreinu.
En það er rétt að þið hafið verið að grípa til frekari aðgerða eftir að greint var frá málinu í fjölmiðlum?
„Þó ykkar hlutverk sé mjög gott, þá var verið að gera ýmislegt og búið að vera gera frá því í vor, en við getum sagt að við höfum sett inn aukinn þunga.“
Þannig að þetta eru allt úrræði sem þið hafið verið að nýta í þessum skóla, það hefur ekkert bæst við í kjölfar umfjöllunarinnar?
„Jújú, við getum sagt að við séum að nýta öll verkfærin sem við eigum til í kistunni núna. Við vorum búin að að vera að vinna þetta, sérstaklega miðstöðin og fagstjórar okkar voru búnir að vera að vinna þetta. En eins og hefur komið fram þá sjáum við það eftir á að við hefðum þurft að setja meiri þunga inn, en við erum núna að stíga inn af fullum þunga,“ segir Árelía.
„Við erum bara að læra af þessu tiltekna máli, hvernig og hvenær við stígum inn. Eins og alltaf erum við að endurskoða það verklag okkar, hvernig við stígum inn. Við erum að læra af þessu ferli,“ segir hún jafnframt.
Spurð hvort það hafi verið rætt hvort þyrfti að leita nýrra leiða eða grípa til annarra aðgerða í svona málum en hefur verið gert, svarar hún því neitandi.
„En við vitum það alveg að við þurfum að læra, þetta er bara eins og þegar eitthvað svona kemur upp og verður aðkallandi, þá erum við alltaf að læra; getur verið að við þurfum að grípa fyrr inn með þyngri verkfærum ef það er hægt að orða það þannig. Við erum öll af vilja gerð að læra af þessu máli alveg eins og allt sem kemur upp á í 150 stofnunum skóla- og frístundaráðs.“