Fundur samninganefnda Kennarasambands Íslands, ríkis og sveitarfélaga hófst klukkan ellefu í morgun, eftir að hafa verið frestað á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þá höfðu samninganefndirnar setið við frá því klukkan þrjú.
Það var Kennarasambandið sem óskaði eftir fundinum í gær, en þá höfðu samninganefndir leik- og grunnskólakennara og sveitarfélaga ekki fundað formlega í rúma viku. Óformleg samtöl höfðu þó átt sér stað.
„Við erum að reyna að feta þetta áfram,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is, en blaðamaður náði tali af honum rétt fyrir fundinn í morgun.
Hann segir stöðuna viðkvæma og því sé lítið hægt að segja um framgang mála að svo stöddu.
„Efnið hefur lengi verið mjög afmarkað, það hefur þá allavega náðst að afmarka mjög efnið en það á eftir að loka þessum síðustu úrlausnarefnum.“
Fram hefur komið að innanhússtillaga sem Ástráður lagði til í lok janúar sé enn á borðinu, en hún byggir á að lausn deilunnar um jöfnun launa á milli markaða verði leyst með virðismati á störfum kennara.
Bæði ríki og sveitarfélög samþykktu tillöguna í byrjun febrúar, en kennarar hafa viljað gera á henni breytingar. Vilja þeir meiri launahækkanir en eru á borðinu, ásamt því að hafa inni í forsenduákvæði sem gerir þeim kleift að segja upp samningnum á tímabilinu, hugnist þeim ekki staðan á eða niðurstaðan úr þeirri virðismatsvegferð sem lagt er upp með.
Formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur hins vegar sagt að sveitarfélögin hafi teygt sig eins langt og þau geti til að koma til móts við launakröfur kennara og að þeim hugnist ekki að hafa uppsagnarákvæði í samningnum. Á þessu hafa samningar strandað.
Samninganefndir ríkisins og Félags framhaldsskólakennara hafa fundað síðustu daga. Þar hafa meðal annars verið mótaðar lausnir sem snúa að afmörkuðum þætti kjarasamningsins er varða eingöngu framhaldsskólakennara.
Á morgun, föstudag, hefjast ótímabundin verkföll í fimm framhaldsskólum og einum tónlistarskóla, náist samningar ekki fyrir þann tíma.
Þá hafa verkföll verið boðuð í öllum leikskólum Kópavogsbæjar þann 3. mars næstkomandi, í leikskólum Hafnarfjarðar þann 17. mars og leikskólum í Fjarðabyggð þann 24. mars.
Einnig hefur verið boðað til tímabundinna verkfalla í grunnskólum í Ölfusi, Hveragerðisbæ og á Akranesi sem hefjast þann 3. mars og standa til 21. mars.