Vill fækka sýslumannsembættum

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumvarp sem kveður á um fækkun sýslumannsembætta í eitt hefur verið lagt fram á Alþingi, en flutningsmaður er Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra. Auk hans er Hildur Sverrisdóttir þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins flutningsmaður frumvarpsins.

Mælir frumvarpið fyrir um að aðsetur sýslumanns verði á Húsavík í Norðurþingi, en eitt útibú á höfuðborgarsvæðinu og á 24 stöðum á landsbyggðinni.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram að Jón hafi haft hug á að leggja þetta frumvarp fram þegar hann gegndi embætti dómsmálaráðherra, en af því varð ekki. Guðrún Hafsteinsdóttir, arftaki hans í embætti, gerði frumvarpið ekki að sínu og hefur það legið óhreyft þar til nú.

Í frumvarpinu er lagt til að umdæmismörk sýslumannsembættanna verði lögð niður í núverandi mynd og landið allt verði gert að einu þjónustuumdæmi með svæðisbundinni skiptingu undir yfirstjórn eins sýslumanns, með það að meginmarkmiði að bæta þjónustu við almenning.

Frumvarpið kveður á um að breytingin taki gildi 1. janúar á næsta ári og að öll störf hjá sýslumannsembættunum verði þá lögð niður. Verði starfsfólki embættanna boðið starf hjá hinu nýja embætti sýslumanns. Verði frumvarpið að lögum fækkar sýslumannsembættum úr níu í eitt.

Meginmarkmið frumvarpsins eru þrjú, að því er fram kemur í greinargerð; bætt þjónusta, bætt stjórnun og rekstur og aukið framboð opinberrar þjónustu í héraði. Ætlunin er að stuðla að hraðari innleiðingu stafrænna lausna við framkvæmd verkefna, ásamt því að skapa tækifæri til að nýta fjárhagslega hagræðingu sem fylgir breyttri framkvæmd í þágu þjónustuþega og frekari uppbyggingar embættisins.

„Frumvarpið er teiknað upp þannig að störfum á landsbyggðinni mun fjölga, húsnæði verði nýtt betur og með aukinni stafrænni þjónustu mun draga úr vægi skrifstofanna úti á landi, nema til þeirra verði flutt önnur vekefni og vinnulag verði samræmt á milli skrifstofanna,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert