„Algjört ábyrgðarleysi af viðsemjendum kennara“

Ráðherra er ómyrkur í máli í garð samninganefndar Sambands íslenskra …
Ráðherra er ómyrkur í máli í garð samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Það er komin upp mjög erfið staða og ég er gjörsamlega miður mín yfir þessu,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra um kjaradeilu kennara við samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins.

„Mér finnst algjört ábyrgðarleysi af viðsemjendum kennara að ganga svona frá málum, svo ég segi það bara,“ segir ráðherrann í samtali við mbl.is.

Kveðst Ásthildur virkilega svekkt yfir stöðunni og furðar sig á því að þegar ríkissáttasemjari leggi fram innanhústillögu og kennarar samþykkja, sem hingað til hefur verið sagt að hafi staðið í vegi fyrir samningum, segi sveitarfélögin „Nei, takk“.

Hjáseta ríkisins óboðleg

„Maður bara veltir fyrir sér hvað liggur þarna að baki,“ segir Ásthildur Lóa.

„Mér finnst þetta með ólíkindum og nú er ábyrgðin samninganefnda sveitarfélaganna og ríkisins, sem ég er ekki mjög sátt við á þessari stundu.“

Hvað finnst þér um að samninganefnd ríkisins hafi kosið að taka ekki afstöðu til innanhústillögu ríkissáttasemjara?

„Mér finnst það ekki boðlegt. Ég ætla bara að segja það. Ekki þegar eru hafin verkföll í framhaldsskólum. Mér finnst ekki boðlegt að samninganefnd ríkisins hafi ekki tekið afstöðu.“

„Lagasetning kemur ekki til greina“

Nú eru verkföll hafin í völdum framhaldsskólum og fleiri verkföll yfirvofandi, m.a. í grunn- og leikskólum. Kemur til greina að setja lög á verkföll?

„Lagasetning á verkföll kemur ekki til greina.“

Spurð út í aðgerðir kennara í dag þegar þeir gengu víða út af sínum vinnustöðum segist Ásthildur Lóa vel geta sett sig í þau spor. Ekki sé langt síðan hún var hinum megin við borðið og segist hún klárlega hefðu gengið út með félögum sínum í dag ef hún hefði verið þar.

„Þetta er blaut tuska framan í kennara og í rauninni sýnir þetta að mínu mati að það hefur aldrei verið samningsvilji, að minnsta kosti ekki af hálfu sveitarfélaganna.

Ég veit að hann hefur verið fyrir hendi frá ríkinu en þess vegna er ég líka mjög ósátt við og hissa á því að þeir skuli hafa setið hjá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka