Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa flokkarnir fimm sem staðið hafa í meirihlutaviðræðum í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarna daga ekki enn gengið frá verkaskiptingu sín á milli. Þar mæna flestir á stól borgarstjóra en ekkert mun hafa verið ákveðið, hvað þá innsiglað um það.
Flestir hafa talið líklegast að Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingar, yrði nýr borgarstjóri hins nýja hreina vinstrimeirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, enda er Samfylkingin stærst flokka í þeim hópi með fimm borgarfulltrúa.
Ekki hefur hins vegar verið full samstaða í hópnum um að Samfylkingin ætti að leiða meirihlutann úr borgarstjórastóli, og meðal annars rætt um að finna borgarstjóra utan borgarstjórnar.
Þar munu meðal annars hafa verið reifuð sjónarmið um pólitíska ásýnd þess að Samfylking haldi forystu í enn einum meirihlutanum, en einnig hefur verið bent á að Heiða standi í ströngu sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga með kennaradeiluna í fanginu. Heiða hefur setið í borgarstjórn frá 2015 og á 54 ára afmæli í dag.
Mikið gekk greinilega á í viðræðum flokkanna fimm í gær, en um kaffileytið var ekkert útlit fyrir að dregið gæti til tíðinda í dag. Skömmu eftir klukkan fjögur var skrifstofa borgarstjórnar hins vegar beðin um að undirbúa og boða aukafund borgarstjórnar, en aukafundi má boða með sólarhringsfyrirvara. Það mun vera skýringin á hinum óvenjulega fundartíma kl. 16.40.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag