Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið að falla frá umdeildum áformum um að breyta tollflokkun erlendra mjólkurvara, nánar tiltekið jurtaosts.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra greinir frá þessu í færslu á facebook.
Sex samtök bænda höfðu gagnrýnt áform Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, verulega og sagt að breytingin myndi valda stórauknum innflutningi og þar með myndu íslenskir bændur verða af hundruð milljóna króna.
„Ég hef heyrt áhyggjur bænda af því að til standi að breyta tollflokkun jurtaosts til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar og að breytingin kunni að hafa í för með sér neikvæð áhrif á einhvern hluta innlendrar framleiðslu og samkeppnisstöðu bænda,“ skrifar Hanna Katrín.
Málið snýst um tollflokkun á pitsaosti þar sem ágreiningur hefur verið um tollflokkun hans fyrir dómstólum.
Danól ehf. flutti inn pitsaost með íblandaðri jurtaolíu og var hann samkvæmt ráðleggingum starfsmanna tollstjóra hjá Skattinum flokkaður í 21. kafla tollskrárinnar, sem ber ekki tolla. Er það í takti við úrskurð frá árinu 2023 þar sem Alþjóðatollastofnunin (WCO) úrskurðaði, að beiðni ESB, að varan ætti heima í 21. kafla.
Málið fór fyrir héraðsdóm sem hafnaði kröfu Danóls og osturinn skilgreinist áfram innan 4. kafla tollalaga sem ber háa skatta eða 30%.
Hanna kveðst hafa átt í góðu samtali við Daða Má um alla anga þessa máls og í kjölfarið hafi hann ákveðið að afturkalla áform um breytingar að sinni.
„Og hefja frekari skoðun málsins og eiga samráð við hagaðila með það að markmiði geta sameinað alþjóðlegar skuldbindingar, hagsmuni bænda og hagsmuni neytenda í þessu máli,“ skrifar Hanna.