Formaðurinn mætti ekki á fund stjórnar

Heiða Björg Hilmisdóttir er formaður SÍS.
Heiða Björg Hilmisdóttir er formaður SÍS.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), mætti ekki á stjórnarfund í gærkvöldi þar sem innanhússtillaga Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara var lögð fram og rædd.

Samkvæmt heimildum mbl.is kom fjarvera formannsins flatt upp á stjórnarmenn sem eru á ögurstundu í samningaviðræðum við kennara, ekki síst í ljósi mikilvægis fundarins. Eins og fram hefur komið er hún orðuð við borgarstjórnarstól í Reykjavík en samningaviðræður vinstri flokka þar eru langt komnar.

Mætti í morgun 

Sveitarfélögin báðu um frest til hádegis í dag til þess að fara yfir tillögu Ástráðs áður en tekin verður ákvörðun um það hvort samið verði. Kennarar eru sagðir hafa samþykkt tillögu Ástráðs.  

Samninganefnd SÍS og sveitarstjórar sveitarfélaganna fóru yfir samningstilboðið sem lagt var fram á fundi í morgun og var Heiða mætt á þann fund. Samninganefnd hefur sterkt umboð og hafa sveitarstjórar ekki eiginlegt neitunarvald við samningi en þeir eru hafðir með til skrafs og ráðagerðar á þessum tímapunkti í viðræðunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka