Fullt tilefni er til þess að endurskoða hvernig staðið er að skipulagi skólamála í Reykjavíkurborg og koma á fót sérstöku úrræði, móttökudeild, fyrir erlenda nemendur, þannig að þeir læri tungumálið og aðlagist betur íslensku skólakerfi.
Þetta segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem sæti á í skóla- og frístundaráði borgarinnar, en haldinn var aukafundur í ráðinu sl. miðvikudag að ósk fulltrúa flokksins, þar sem ástandið í reykvískum grunnskólum var til umræðu og sjónum sérstaklega beint að alvarlegu ástandi í Breiðholtsskóla.
Helgi Áss Grétarsson, sem á sæti í ráðinu, segir það stefnu flokksins að æskilegt sé að börn sem komi til landsins og ekki tali íslensku taki sín fyrstu skref í grunnskóla í móttökuskóla eða -deild þar sem öll áhersla sé á íslensku og íslenska menningu.
Endurskilgreina þurfi hugmyndina um skóla án aðgreiningar og tryggja að þeir nemendur sem þurfi aukinn stuðning fái hann.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag