Hefur fullan skilning á viðbrögðum kennara

Þorsteinn segir Kennarasambandið hafa slakað mikið á kröfum og furðar …
Þorsteinn segir Kennarasambandið hafa slakað mikið á kröfum og furðar sig á afstöðu viðsemjenda. Samsett mynd/KÍ/mbl.is/Anton Brink/Karítas

„Ég hef fullan skilning á þeim viðbrögðum sem hafa átt sér stað,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands.

Vísar hann þar til aðgerða í grasrót kennara, sem gengu víða út af sínum vinnustöðum í kjölfar þess að sveitarfélög og ríki samþykktu ekki innanhústillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilunni.

„Mér finnst hafa komið upp mjög alvarleg staða í hádeginu að ríki og sveitarfélög skildu hafna þessari tillögu sáttasemjara sem við ákváðum að skrifa undir í gær.“

Mjög alvarleg staða

Segist Þorsteinn ekki skilja hvers vegna tillögunni hafi verið hafnað. „Ég taldi að þarna væri kominn grunnurinn að samkomulagi sem við höfum beðið eftir svo mánuðum skipti.“

Þorsteinn skrifaði undir tillöguna í gær fyrir hönd skólastjórafélagsins og segir það ekki hafa verið auðvelt af þeirra hálfu. „Við erum búin að slaka mikið á.“

Mikið í húfi fyrir börnin og samfélagið

Hann segir þá ákvörðun að skrifa ekki undir vera mjög alvarlega í ljósi þess að í morgun hófu fimm framhaldsskólar á Íslandi verkföll og eftir eina viku hefjist verkföll í fjölda leikskóla og grunnskóla.

„Ég verð bara að segja það enn og aftur að það kom mér á óvart að ekki yrði skrifað undir þessa tillögu sáttasemjara þegar jafn mikið er í húfi fyrir börnin okkar og samfélagið og raun ber vitni,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka