Hugmyndin spratt upp hjá grasrótinni í Árborg

Kennarar ganga út úr Stekkjaskóla á Selfossi í dag.
Kennarar ganga út úr Stekkjaskóla á Selfossi í dag. Ljósmynd/Aðsend

Útganga grunnskólakennara í hádeginu í dag er sprottin úr grasrótinni. Aðgerðin hófst á léttu spjalli trúnaðarmanna fjögurra grunnskóla í Árborg.

Þetta segir trúnaðarmaður kennara í Stekkjaskóla á Selfossi.

Kenn­ar­ar víða gengu út af vinnu­stöðum sín­um eft­ir að afstaða samn­inga­nefnda rík­is og sveit­ar­fé­laga varð ljós í há­deg­inu um inn­an­hústil­lögu rík­is­sátta­semj­ara.

Á það meðal annars við um kennara í Hörðuvalla­skóla og Álf­hóls­skóla í Kópa­vogi, Skarðshlíðarskóla og Hraunvallaskóla í Hafnar­f­irði, Heiðarskóla í Reykja­nes­bæ auk grunnskólanna fjögurra sem heyra undir Árborg.

Þá hefur heyrst að ekki hafi verið hægt að halda úti kennslu eftir hádegi í dag í Austurbæjarskóla og Réttarholtsskóla í Reykjavík að sömu ástæðu.

Verðum við ekki að gera eitthvað?

„Ef það verður sagt nei, verðum við ekki að gera eitthvað?“ Þá spurningu báru trúnaðarmennirnir undir kennara í sínum skólum að sögn Leifs Viðarssonar, grunnskólakennara til 20 ára og trúnaðarmanns kennara í Stekkjaskóla á Selfossi.

Mikil samstaða var með aðgerðunum og segir Leifur almennt mikla samstöðu hafa ríkt meðal kennara í kjaradeilunni.

Trúnaðarmenn í Árborg deildu fyrirætlunum sínum með öðrum trúnaðarmönnum á Suðurlandi og svo virðist sem orðið hafi síðan borist víðar.

„Eflaust hefur þetta spurst til annarra skólastiga og sveitarfélaga því þetta er stór vettvangur á samfélagsmiðlum hjá kennurum sem tala saman.“

Leifur segir magnað með þessa stétt að hún þurfi einhvern veginn alltaf að réttlæta sín störf og alltaf þurfi hún að vera í stöðugum deilum við vinnuveitanda sinn.

„Ég veit ekki hvar þetta tíðkast. Við erum bara sögð vera löt og veik og að við gerum ekki neitt. Vinnuveitandinn okkar talar svona um okkur í fjölmiðlum,“ segir Leifur.

Hrósar forystunni

Mætið þið til vinnu á mánudag?

„Það er aldrei að vita hvað verður gert en við byrjum á því að leyfa okkar forystu að bregðast við þessu. Þau hafa staðið sig mjög vel og kennarar eru almennt mjög ánægðir með forystuna og allar aðgerðir. 

Ég býst við fullt af uppsögnum og það eru hugmyndir að ýmsum aðgerðum farnar að myndast í ýmsum spjallgrúppum um allt internetið,“ segir hann.

Miðað við ganginn síðastliðinn fimm og hálfan mánuð líður Leifi sem það sé voða lítið að frétta.

„Þetta er bara eins og að vera í ofbeldissambandi, það er kannski bara kominn tími til að maður láti aðeins í sér heyra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka