„Það eru kannski helst málin sem ég talaði um, húsnæðismálin, að brjóta nýtt land,“ segir Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, spurð út í þau mál sem mest brenni á nýjum meirihluta í stjórn Reykjavíkurborgar.
Segir hún að byggt verði upp með verkalýðshreyfingunni auk þess sem samgöngumál verði í brennidepli. „Við munum lagfæra íbúakortin og aðeins rýmka reglurnar fyrir bílastæði,“ segir Helga og er spurð nánar út í orð hennar um að brjóta nýtt land, ætlar meirihlutinn sér í mikla uppbyggingu á nýju landi?
„Já. Ákveðið land er þegar tilbúið til skipulagningar og við byrjum þar, það er þarna fyrir ofan Bauhaus,“ svarar Helga og vísar til lands Úlfarsfells við Vesturlandsveg.
Hvað með Reykjavíkurflugvöll? Þið ætlið að tryggja rekstraröryggi flugvallarins þar til ný staðsetning verður fundin. Eruð þið þeirrar skoðunar að finna þurfi nýja staðsetningu fyrir flugvöllinn?
„Ég hef enga skoðun um það, en á meðan við erum með flugvöll verðum við að hafa algjört öryggi, það er staðreynd að flugvöllurinn er ekkert að fara á næstu 15 til 20 árum og þá þarf að tryggja öryggið, strax,“ svarar Helga.
Spurð út í skólamál og fjölgun leikskóla kveður Helga von á nokkrum leikskólum sem hafi verið í uppbyggingu. „Aðallega höfum við verið að horfa til svona smáhýsa til að bæta við, en auðvitað byggist þetta á að við höfum starfsfrið og þess vegna eru þessar samningaviðræður við kennara mjög mikilvægar – að þær leysist,“ segir Helga.
Hún kveðst vonast til að eitthvað verði hægt að höggva í biðlistana eftir leikskólaplássum, „ég hef verið kennari í rúm 40 ár og börn eru mitt hjartans mál. Þess vegna tek ég að mér formennsku í skóla- og frístundaráði, ég legg gríðarlega áherslu á aðbúnað barna.“
Spurð út í hvort þær oddvitarnir telji sig munu áorka miklu á þeim fjórtán mánuðum sem til stefnu eru fram að sveitarstjórnarkosningum segir Helga meirihlutann hafa komið sér upp verkefnalista og fyrsta verkefni á honum verði að finna hjólhýsabúum nýjan stað. „Það er eitt verkefni af mörgum,“ segir hún að lokum.