Logi Már Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, lagði í gær fram drög að frumvarpi til breytinga á fjölmiðlalögum í samráðsgátt. Sett er hámark á hversu hátt hlutfall miðlar geta fengið af heildarupphæð styrkveitingar.
Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun á stuðningi við fjölmiðla.
Kafli fjölmiðlalaga er snýr að fjárstuðningi við fjölmiðla féll úr gildi síðastliðin áramót en með frumvarpinu er lagt til að þau ákvæði verði tekin upp í lögin að nýju, þó er lagt til að gildistími þessara ákvæða verði aðeins til næstu áramóta.
Með frumvarpinu er þó lögð til ein breyting frá fyrri lögum.
Lagt er til að hlutfall stuðnings til hvers umsækjanda geti ekki verið hærri en 22% af heildarfjárveitingu til verkefnisins en áður var miðað við 25%.
Eins og áður segir er gildistími ákvæða frumvarpsins aðeins til næstu áramóta. Þó segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu að frumvarp sem að festir í sessi stuðning til einkarekinna fjölmiðla verði lagt fram á haustþingi. Þetta frumvarp er því aðeins til þess að hægt sé að tryggja stuðning til einkarekinna fjölmiðla á árinu 2025.
„Framlenging á styrkjum um eitt ár og lækkun þaks um 3% stig eru liður í að koma á jafnari dreifingu stuðningsins milli fjölmiðla og færa fyrirkomulagið nær þeirri þróun sem er að eiga sér stað á Norðurlöndunum. Þetta er hluti af heildarendurskoðun á því hvernig við getum stutt sem best við heilbrigt og blómlegt fjölmiðlaumhverfi sem skilar okkur sem þjóð, upplýstu og faglegu fjölmiðlaumhverfi til framtíðar. Tækifærin í þeirri vinnu eru mörg og verður kapp lagt á að stuðla að stöðugleika,“ er haft eftir Loga í tilkynningunni frá Stjórnarráðinu.