Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, kveðst ekki bjartsýn á næstu fjórtán mánuði í borgarstjórn þó hún taki þátt í nýjum meirihluta. Kveðst hún frekar vera varkár og segir væntingastjórnun skipta máli.
Ertu bjartsýn á næstu fjórtán mánuði?
„Bjartsýn, nei. Ég veit ekki hvort að það sé hægt að nota orðið bjartsýn. Ég er varkár og mér finnst rétt að vera með ákveðna væntingastjórnun,“ segir Líf í samtali við mbl.is.
„Þetta er auðvitað algjört spretthlaup, ég er reyndar alveg ágæt í spretthlaupum, en sjáum hvað setur.“
Nýr borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Sósíalista, Flokks fólksins og Pírata var kynntur í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, er nýr borgarstjóri og Sanna Magdalena Mörtudóttir sósíalisti er forseti borgarstjórnar.
Myndir þú segja að þetta sé vinstrisinnaðasti meirihluti sem við höfum séð í Reykjavík?
„Ég skal ekki segja,“ segir Líf og nefnir að Flokkur fólksins skilgreini sig hvorki sem vinstri flokk né hægri flokk.
„Við höfum talað um okkur sem félagshyggjumiðaðar konur sem vilja framfylgja þeirri stefnu og það er á samfélagslegum grunni. Það þýðir að hver og einn ber ekki bara ábyrgð á sjálfum sér heldur berum við öll saman ábyrgð á því samfélagi sem við búum í. Það er hugmyndafræði okkar sem við ætlum að fylgja eftir,“ segir Líf.
Aðeins fjórtán mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu og Líf segir að nýr meirihluti sé með grófar hugmyndir um það hvaða beinhörðu aðgerðir sé hægt að ráðast í áður en kjörtímabilinu lýkur.
Hún segir þó að ábyrg áætlanagerð skipti miklu máli og að liggja þurfi fyrir hvernig sé hægt að fjármagna hinar ýmsu aðgerðir áður en ráðist er í þær.
„Ég hef verið mjög skýr með það að það þarf að taka til í rekstrinum hérna af því að – eins og allir sem hafa þurft að halda á fjármálum vita – þú ert ekki að eyða peningum sem þú átt ekki eða hefur ekki til umráða. Við þurfum að lækka skuldirnar, við þurfum að fækka verkefnum og við þurfum að nýta mannauðinn okkar betur. Þannig við þurfum að leggjast yfir það,“ segir hún en tekur fram að það þurfi að fara varlega í það hvar eigi að skera niður.
Hún segir að það styttist í fjárhagsáætlunargerð og þá muni koma betur í ljós hvernig eigi að fjármagna ný útgjöld.