Ný lögreglustöð opnuð í Vík í Mýrdal

Ný lögreglustöð verður opnuð í Vík í Mýrdal á næstu …
Ný lögreglustöð verður opnuð í Vík í Mýrdal á næstu dögum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ný lögreglustöð verður opnuð í Vík í Mýrdal á næstu dögum en jarðhæð hússins að Ránarbraut, sem áður hýsti Arion banka, hefur verið gerð upp og þar hefur nú verið byggð nútímaleg lögreglustöð sem þjóna mun starfseminni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurlandi en þar segir að umdæmi hennar sem er það víðfeðmesta á landinu starfræki fimm starfsstöðvar sem eru á Selfossi, Hvolsvelli, Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri og á Höfn í Hornafirði. 

Mikilvægur liður í að efla starfsemina

„Ný lögreglustöð í Vík í Mýrdal er mikilvægur liður í því að efla starfsemina á miðsvæði embættisins. Samfélagið í Vík og nærsveitum hefur farið ört stækkandi, mikill fjöldi ferðamanna fer þar í gegn og við verðum að vera við öllu viðbúin þegar kemur að kröftugri náttúru á þessu svæði,“ er haft eftir Grími Hergeirssyni, lögreglustjóra á Suðurlandi, í tilkynningunni.

Hann segir að í nýrri lögreglustöð felist mikil sóknarfæri en þar sé aðstaða fyrir lögreglumenn til að dvelja sem muni auðvelda að tryggja mönnun á svæðinu.

Nýlega var bætt við stöðu aðalvarðstjóra í Vík. Sú ráðstöfun leiðir m.a. til bættrar þjónustu við almenning en fastur opnunartími afgreiðslu verður mánudaga til miðvikudaga frá 09:00-15:00. Á öðrum tímum verður áfram hægt að nálgast vaktahafandi lögreglu á svæðinu.

Formleg opnun nýrrar lögreglustöðvar í Vík í Mýrdal verður þriðjudaginn 25. febrúar n.k. klukkan 14:00-16:00. Á þeim tíma verður lögreglustöðin opin fyrir gesti og gangandi og heitt kaffi á könnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka