Nýtt algengt kynferðisbrot barna rakið til Tiktok

Kolbrún segir börnin oft ekki átta sig á að um …
Kolbrún segir börnin oft ekki átta sig á að um ofbeldi sé að ræða, þó afleiðingarnar geti verið alvarlegar. Ljósmynd/Colourbox

Um 730 unglingar í 8. til 10. bekk svöruðu því játandi í Íslensku æskulýðsrannsókninni að annar unglingur hefði brotið á þeim kynferðislega með því að hafa við þau samfarir eða munnmök gegn vilja þeirra.

22 skólar tóku ekki þátt í rannsókninni og talið er að innan við helmingur barna segi frá slíku ofbeldi, þannig ætla má að raunverulegar tölur séu mun hærri.

Þetta segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttur, verk­efn­a­stýra of­beld­is- og kyn­heil­brigðismála hjá Barna­heill, en hún flutti erindi um kynferðisbrot á milli unglinga á morgunfundi Náum áttum í vikunni. 

Algengustu brotin sem eiga sér stað á meðal unglinga á grunnskólaaldri eru brot í nánu sambandi þar sem farið er yfir mörk. Einnig óvelkomnar snertingar, stafrænt kynferðisofbeldi og sending nektarmynda. Kolbrún bendir þó á að í hugum unglinga sé allt kynferðisofbeldi gjarnan sett undir sama hatt og nauðgun.

Stinga fingri af öllu afli í endaþarm

Algengasta brotið sem þau sjá núna er hins vegar eitthvað sem virðist mega rekja til Tiktok, þar sem drengir setja fingur inn í endaþarm á hver öðrum. Slíka ofbeldishegðun hafa þau verið að sjá hjá drengjum frá 2. og upp í 9. bekk. 

Þá kemur gjarnan hópur af drengjum aftan að einum dreng og fingri er stungið af miklu afli upp í endaþarm utan klæða. 

Kolbrún segir þetta ofbeldi alvarlegt og að dæmi séu um að þolendum hafi liðið mjög illa og hafi jafnvel þurft að skipta um skóla.

Átta sig ekki á að um ofbeldi sé að ræða

Bylgjur slíkrar hóphegðunar eru þó ekki algengar þegar kemur að kynferðisofbeldi meðal unglinga, en hóphegðun þar sem kynferðisofbeldi er beitt kemur alltaf reglulega upp.

„Alveg eins og við sáum fyrir 15 árum síðan að einhver tottaði sér leið inn í partý,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is.

„Við höfum alveg fengið þannig dæmi í skólum að það er kannski ákveðinn strákahópur sem hefur sigtað út ákveðna stelpu sem er tekin ítrekað til að fullnægja þeim. Það kemur alltaf upp af og til, en ég held að það tengist ekki samfélagsmiðlum.“

Þau hafi verið töluvert lengi að finna það út, að þetta með að stinga fingur í rass hafi komið af Tiktok.

Átta sig ekki á alvarleikanum

Að sögn Kolbrúnar átta börn sig í fæstum tilfellum á því að um kynferðisofbeldi sé að ræða. Þau átta sig jafnvel ekki á því að þetta sé ofbeldi. 

„Þeim finnst þetta vera stríðni, finnst þetta vera leikur því þeim finnst hann skemmtilegur, en átta sig ekki á þessum alvarlegu afleiðingum,“ segir Kolbrún.

„Þetta er alveg frá því að einhver sé að setjast og það er settur putti undir, yfir í að einhverjum sé haldið á gólfinu eftir íþróttatíma. Hann liggur þá fastur á meðan allir standa í hring og hlæja. Við erum að sjá alls konar útgáfur af þessu.“

Hún segir að mörgum finnist þetta fyndið á meðan þeir lendi ekki í þessu, en þó séu dæmi um að drengir segi foreldrum sínum frá því að verið sé að gera þetta við aðra.

„Stundum koma þessi mál upp þannig að þegar eitt barn brotnar niður og segir frá, þá kemur í ljós að það hafa margir drengir verið að þjást, en enginn hefur sagt frá. Stundum hafa þeir jafnvel verið að gera þetta við hver annan innan hópsins og öllum finnst það óþægilegt, en enginn þorir að brjóta hringinn.“

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheill.
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheill. Ljósmynd/Erla Stefánsdóttir

Ekki leita leiða til að refsa

Kolbrún segir mikilvægt að hafa í huga að börn séu ekki litlir fullorðnir. Því sé mikilvægt að leiðbeina þeim frekar en að refsa þeim.

„Börn eru óþroskuð, þau eru með óþroskaðan heila, þau eru hvatvís og vitlaus. Þau eru kjánar, þau fara fram úr sér, þau eru að fikra sig áfram. Þau kunna ekki, mörg þeirra hafa fengið takmarkaða fræðslu og jafnvel alla sínu fræðslu úr klámi. Þar fá þau skökk skilaboð um virðingu, samskipti og annað,“ útskýrir hún.

„Okkar hlutverk er ekki að leita leiða til að refsa þessum börnum, heldur kenna þeim betur. Við þurfum að grípa þau, styðja þau og við þurfum að kenna þeim. Það er það sem skiptir öllu máli.“

Fara á milli hverfa til að berja meintan geranda

Þegar upp kemur kynferðisbrot á meðal unglinga er algengt að hópurinn skiptist í fylkingar og taki afstöðu. Láti jafnvel til sín taka, ekki bara gagnvart meintum geranda heldur líka vinum hans.

Þannig verði vinir þess sem sakaður er um að hafa brotið af sér gjarnan fyrir áreiti, fái skilaboð og séu settir í siðferðisklemmu. „Ætlar þú í alvöru að vera vinkona nauðgara? Af hverju ert þú að tala við hann, hann er nauðgari,“ er spurt.

Dæmi eru um að börn hafi þurft að lýsa því yfir á samfélagsmiðlum að þau séu ekki lengur vinir þess sem sakaður var um brot, til að fá að vera í friði.

„Við erum að sjá slagsmál eða barsmíðar, þar sem réttlætisriddarar upplifa að það séu engin viðbrögð, skólinn sé ekki að fara að gera neitt, foreldrar séu ekki að fara að gera neitt, lögreglan sé ekki að fara að gera neitt, þess vegna þurfi þau að gera þetta sjálf. 

Hvað er þá best að gera? „Jú, stútum honum.“

Við erum að sjá krakka koma úr öðrum hverfum í þeim eina tilgangi að berja meintan geranda. En þau vita ekki hvað gerðist. Það veit það auðvitað enginn nema börnin sem áttu í hlut.“

„Öllum börnunum líður hræðilega“

Kolbrún segir að þarna á bak við sé mögulega stúlka sem hafi upplifað að drengur hafi farið yfir mörk hennar og leitað sér aðstoðar. Drengurinn hafi kannski strokið yfir kynfæri hennar þegar hún var sofandi í partýi. Henni líði illa og vilji tala við einhvern.

„En hún missir þetta algjörlega úr höndunum á sér. Hún segir vinkonum sínum og þær vinum sínum og allt í einu er hann úthrópaður nauðgari og jafnvel komin saga um að hann hafi nauðgað henni meðvitundarlausri. Hennar líðan versnar margfalt því hún er farin að bera áhyggjurnar af því að afleiðingarnar séu svo slæmar fyrir hann. Hennar eigin vanlíðan týnist í hringiðunni. Svo fer hún að fá skilaboð um að hún sé lygari og athyglissjúk. Hinn hópurinn ræðst gegn honum og öllum börnunum líður hræðilega.“

Hún segir að oft standi þessi börn ein og fái ekki tækifæri til að taka á hegðun sinni. Þau séu útilokuð. Það verði því oft þannig börnin sem eigi í hlut dragi sig algjörlega í hlé og einangri sig.

Nánast undantekningalaust sé um að ræða drengi sem fari yfir mörk. Því sé sérstaklega mikilvægt að fræða unga drengi.

„Við þurfum að tryggja börnum og unglingum fræðslu. Þau þurfa góða markvissa kynfræðslu og þau þurfa góða markvissa fræðslu um mörk, samþykki, kynferðislega áreitni, kynferðislegt ofbeldi og kynbundið ofbeldi. Við þurfum að gera vel í þessum málum. Ein fræðsla á ári er ekki nóg og ein fræðsla alla skólagönguna er svo sannarlega ekki nóg.“

„Haldið ró ykkar“

Kolbrún segir að viðhorf og reynsla foreldra geti haft áhrif á það hvernig þeir bregðast við þegar börn leita til þeirra og vilja segja frá ofbeldi eða upplifun. Þeir geti bæði brugðist alltof harkalega við og hunsað eitthvað sem þeim þykir ekki nógu alvarlegt, en er alvarlegt fyrir barn. Það skipti því máli að foreldrar staldri við og rýni í eigin viðhorf og reynslu, til að geta brugðist rétt við.

„Haldið ró ykkar, börnin eiga ekki að bera ykkar tilfinningalegu byrði. Börnin eiga ekki að þurfa að sjá eftir að hafa sagt ykkur því ykkur líður svo illa.“

Ekki sé þörf á að fá allar upplýsingar um málið frá barninu, heldur eingöngu nógu mikið til að vita hver næstu skref eigi að vera. Hvort hringja eigi að hafa samband við skólann, hringja í foreldra, lögreglu eða barnavernd.

Mikilvægt sé að börn fái óskipta athygli þegar þau segja frá og að þau upplifi sig örugg. Að þau geti treyst þeim sem þau segja frá.

„Við þurfum að byrja snemma, bara strax í leikskóla, að tryggja að þau megi segja frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka