Óljóst hvað nýjar aðgerðir meirihlutans munu kosta

Heiða Björg er nýr borgarstjóri.
Heiða Björg er nýr borgarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Heiða Björg Hilmisdóttir, nýr borgarstjóri Reykjavíkur, segir það ekki liggja fyrir hvað aðgerðir nýs meirihluta muni kosta mikið fé. Hún segir að húsnæðismálin séu í forgangi.

Þetta segir Heiða í samtali við mbl.is í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem meirihluti Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Sósíalista, Pírata og Vinstri grænna var kynntur fyrr í dag.

„Ég er auðvitað mjög auðmjúk gagnvart þessum heiðri og trausti sem þessar konur og félagar mínir hafa sýnt mér,“ segir Heiða um borgarstjórastólinn.

Engin kostnaðaráætlun en skýrist betur í mars

Í samstarfssáttmála nýs meirihluta er farið yfir ýmis loforð sem munu kosta peninga. Má þar nefna fjölgun sérfræðinga í skólum, boðun nýrra leikskóla, stóraukið félagslegt leiguhúsnæði, aukið fjármagn í skólabókasöfn, lengri opnunartíma í sundlaugar og fleira.

Er einhver áætlun um það hvað þetta muni kosta?

„Nei. Þess vegna erum við í rauninni ekki með neinar tölur á því, af því að þegar við setjum inn tölurnar þá vitum við nákvæmlega hvað þetta kostar. Við munum búa til tillögur sem eru kostnaðarmetnar og hvaðan við ætlum að fá peningana smám saman á næstu dögum. Ég myndi gera ráð fyrir því að á fyrsta fundi núna í mars komi svolítið kostnaðarmetin og skýrari verkefni,“ svarar Heiða.

Húsnæðismálin í forgangi

Hún segir að helsta áherslumál nýs meirihluta sé að bæta stöðu húsnæðismála.

Í samstarfssáttmálanum er kveðið á um fjölbreytt búsetuform eins og svokölluð kjarnasamfélög (e. co-housing), hjólhýsabyggð og smáhýsi. Einnig segir í sáttmálanum að efnt verði til sameiginlegrar vinnu Reykjavíkur og verkalýðsfélaga með það að markmiði að stofna félag um þróun nýrra svæða og fara nýjar leiðir við skipulag, uppbyggingu innviða og fjármögnun þeirra.

„Okkur finnst húsnæðisuppbyggingin ganga of hægt. Það er ekki nóg að skipuleggja, við þurfum að geta fylgt því betur eftir að það verði að veruleika,“ segir Heiða.

„Ég þori ekki að segja einhverjar tölur“

Hún segir að leikskólamál og rekstur borgarinnar séu einnig forgangsmál. Þannig er til dæmis kveðið á um fjölgun leikskóla og leikskólaplássa í samstarfssáttmálanum.

„Við ætlum að fjölga leikskólaplássum verulega með opnun nýrra leikskóla og stækkun eldri
leikskóla án þess að taka skref í átt að fyrirtækjavæðingu,“ segir í sáttmálanum.

Hafið þið hugmynd um það hvað þið ætlið að bæta við mörgum leikskólum?

„Það er verið að vinna núna í tveimur nýjum leikskólum og viðbyggingum við átta leikskóla. En ég þori ekki að segja einhverjar tölur. En svo er það líka að hraða viðgerðum á þeim leikskólum sem eru lokaðir vegna þess að viðhaldi var ábótavant,“ segir Heiða.

Að lokum kveðst hún vera bjartsýn þrátt fyrir að aðeins 14 mánuðir séu eftir af kjörtímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka