Framganga ríkisstjórnarinnar í garð fjölmiðla, sem fjallað hafa um fjárhagsleg málefni Flokks fólksins, er óskiljanleg og fjarri góðri lýðræðisvenju. Því verður ekki trúað að úr því sem komið er verði staðið við áform um að skerða ríkisstyrki til helstu einkarekinna fjölmiðla.
Þetta kemur fram í máli þeirra Bergþórs Ólasonar, þingflokksformanns Miðflokksins, og Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í þætti Dagmála.
Bergþór telur að málflutningur Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Flokks fólksins og formanns atvinnuvegaenefndar Alþingis, setji áform um breytingar á fjölmiðlastyrkjum í annarlegt ljós.
Sigurjón hefur hvatt til þess að Árvakur, útgáfufyrirtæki Morgunblaðsins og mbl.is, verði svipt ríkisstyrkjum vegna umfjöllunar, sem sé mótdræg sér og flokki sínum.
„Ég held það sé ómögulegt og ég trúi því bara ekki að ríkisstjórnin ætli að leggja málið fram eftir þessa umræðu alla,“ segir Vilhjálmur.
Hann segist alla tíð hafa verið á móti þessum styrkjum til einkarekinna fjölmiðla, einmitt vegna þeirrar hættu sem fylgir því að gera frjálsa fjölmiðla háða fjárveitingavaldinu.
„Við stjórnmálamenn megum aldrei komast með puttana í það að hafa áhrif á fjármál einkarekinna fjölmiðla.“
Vilhjálmur segir það hryggja sig að sjá stjórnarþingmenn tjá sig á þann hátt sem raunin hefði verið, víðs fjarri því sem ætlast mætti til í lýðræðissamfélagi.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn allan hér: