Rangar upplýsingar fjármálaráðherra

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eyþór

Fjármálaráðuneytið gaf út rangar upplýsingar fyrr í mánuðinum um hvenær stjórnmálaflokkar voru skráðir á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins. Ráðuneytið greiddi út styrki til flokkanna vegna ársins 2022 áður en nokkur flokkur uppfyllti skilyrði laganna um skráningu.

Flestir flokka voru þó skráðir á stjórnmálasamtakaskrá á fyrstu mánuðum ársins 2022 og uppfylltu því skilyrði til þess að hljóta styrki vegna þess árs, þótt það væri eftir að styrkurinn var greiddur út, enda hefur það verið túlkun ráðuneytisins að ekki sé eindagi á því innan ársins hvenær flokkum ber að uppfylla skilyrði laganna, svo lengi sem það er gert á fjárlagaárinu.

Sá skilningur birtist einnig í orðum Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi á miðvikudag, þar sem hún kvað flokk sinn fá framlag úr ríkissjóði fyrir þetta ár eftir landsfund flokksins nú um helgina. Þar á að gera á nauðsynlegar breytingar á flokkssamþykktum til þess að flokkurinn fái skráningu sem stjórnmálasamtök og standist því lagaskilyrði til opinberra framlaga.

Þær dagsetningar sem fjármálaráðuneytið birtir sem skráningardagsetningar flokkanna eru dagsetning tilkynninga þeirra. Fullbúin skráning felur í sér tilkynninguna ásamt lögákveðnum fylgigögnum, en enginn flokkur hafði skilað tilkynningu ásamt öllum fylgigögnum þegar ráðuneytið greiddi styrkina út árið 2022.

Styrkir vegna ársins 2022 voru greiddir út til allra flokka 31. janúar 2022, þrátt fyrir að þeir uppfylltu ekki skilyrði laga. Fjármálaráðuneytið hefði eftir ströngum skilyrðum laga átt að bíða með greiðslu til hvers flokks það árið þangað til skilyrðin voru uppfyllt.

Samfylking og Viðreisn uppfylltu ekki skilyrði er styrkir voru greiddir árið 2022

Af þeim dagsetningum sem ráðuneytið birti mátti skilja sem svo að tveir ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingin og Viðreisn, hefðu uppfyllt skilyrði laganna þegar styrkirnir voru greiddir út, en svo er ekki.

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins frá því fyrr í mánuðinum segir að Samfylkingin hafi verið skráð á stjórnmálasamtakaskrá 13. janúar 2022 og Viðreisn 25. janúar 2022.

Flokkarnir skiluðu tilkynningareyðublaði þá daga en ekki öllum þeim fylgigögnum sem Skatturinn krafðist og lög fera ráð fyrir fyrr en í febrúar. Í tilfelli Samfylkingarinnar samþykkti Skatturinn skráningu 3. febrúar en í tilfelli Viðreisnar 15. febrúar.

Þetta kemur fram í gögnum frá Skattinum sem Morgunblaðið fékk með upplýsingabeiðni.

Fengu ríkara svigrúm á fyrsta ári

Á þessu fyrsta ári, sem skilyrðið um skráningu á stjórnmálasamtakaskrá tók gildi, þurftu nær allir flokkar að breyta samþykktum sínum til samræmis við lög um starfsemi stjórnmálasamtaka, en að því er ekki hlaupið því halda þarf aðalfund eða landsfund til þess að breyta þeim, oft að undangenginni umfjöllun annarra stofnana flokkanna.

Var við því brugðist þannig, í samráði við dómsmálaráðuneytið, að flokkarnir skiluðu yfirlýsingu þess efnis að úr yrði bætt á næsta aðalfundi þeirra.

Það hafði enda verið rætt í nefnd við samningu lagafrumvarpsins, að stjórnmálaflokkar þyrftu ráðrúm til þess að bregðast við þessum nýju lagaskilyrðum, sem gildi tóku í upphafi árs 2022. Sá skilningur virðist hafa ríkt í fjármálaráðuneytinu að greiða mætti út alla styrki til þeirra flokka, sem til þess voru bærir árið áður, í góðri trú um að þeir skiluðu inn gögnum í samræmi við lagabreytinguna svo fljótt, sem auðið væri. Það gerðu þeir enda allir nema Vinstri grænir og Flokkur fólksins.

Ekki liggur fyrir hvers vegna fjármálaráðuneytið birti rangar dagsetningar yfir skráningu flokka á stjórnmálasamtakaskrá eða hvaðan þær eru komnar. Eins og fram kom í fréttum Morgunblaðsins og mbl.is leitaði Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra ekki til ríkisskattstjóra (Skattsins) við rannsókn sína í aðdraganda ákvörðunar um að Flokki fólksins bæri ekki að greiða oftekin og heimildarlaus framlög úr ríkissjóði árin 2022, 2023 og 2024. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka