„Það var að sjálfsögðu svar Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag þar sem þau sögðust ekki til í að koma til móts við okkur kennara,“ segir Magnea Arnardóttir, þroskaþjálfi og leikskólakennari, í samtali við mbl.is.
Magnea er þó hugsanlega á leið í þann raunveruleika að vera fyrrverandi leikskólakennari því í dag sagði hún starfi sínu á leikskólanum Rauðhóli lausu með síðasta starfsdag þar áætlaðan 31. maí.
Hér að ofan svarar hún spurningu blaðamanns um hver dropinn sem fyllti mælinn hafi verið, hvers vegna hún hafi tekið þá ákvörðun að leggja fram uppsagnarbréf sitt.
Magnea birtir bréfið á Facebook-síðu sinni og er hispurslaus í fylgitexta með mynd af bréfinu:
Rétt í þessu sagði ég starfi mínu lausu hjá Reykjavíkurborg. Ég er búin að berjast og berjast. Ég veit ekki hvað ég get gert meira.
Leikskólakennarar eru ómissandi og í útrýmingarhættu.
Er það í alvöru samfélag sem við viljum, án þessarar stéttar?
Óvirðing gagnvart störfum okkar er ólíðandi og við eigum skilið betri kjör og vinnuaðstæður. Viðsemjendur okkar virðast ekki vera tilbúin að sjá það.
Semjið strax, ég elska nefninlega vinnuna mína.
Hún er spurð út í orð sín um ólíðandi óvirðingu.
„Ég er búin með fimm ára háskólanám,“ svarar Magnea og leggur áherslu á hvert orð, „laun mín eru á pari við laun manneskju sem vinnur í mötuneyti hjá einkafyrirtæki. Ég sinni rosalega mikilvægu starfi, en ég finn ekki fyrir að það sé mikilvægt í augum stjórnvalda.“
Sem er í raun gömul saga er það ekki?
„Allt of gömul, allt of gömul saga, en ég hef ekki fleiri spil á hendi en þetta – og ég vona í alvöru að fólk semji. Ég er líka búin að fara í verkfall og fá á okkur dóm. Og það var ekki gaman,“ segir þroskaþjálfinn ákveðinni röddu. „Við erum bara búin að vera með óbragð í munni allt of lengi.“
Aðspurð kveðst hún munu draga uppsögn sína til baka náist samningar í kjaradeilu kennara. „Já, enda vinn ég bestu vinnu og á besta stað sem ég gæti verið á,“ segir Magnea, en kveðst hins vegar ekki bjartsýn á að forsenda afturköllunar uppsagnarinnar verði að raunveruleika.
„Ég get ekki verið það – og þess þá heldur með þennan borgarstjóra sem hefur ekki farið fallegum orðum um kennara og samninganefnd hingað til,“ segir Magnea Arnardóttir að lokum og vísar til Heiðu Bjargar Hilmisdóttur sem meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur kynnti í dag formlega sem nýjan borgarstjóra.