Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista í Reykjavík, náði ekki kjöri til embættis forseta borgarstjórnar í fyrstu atkvæðagreiðslu á fundi borgarstjórnar í dag.
Kjósa þurfti aftur til þess að tryggja henni 12 atkvæði og þar með meirihluta.
Þetta staðfestir Helga Björk laxdal, skrifstofustjóri borgarstjórnar, í samtali við mbl.is.
Sanna er einn af oddvitunum í nýjum meirihluta og kom í hennar hlut að verða forseti borgarstjórnar. Vakti það því athygli þegar greiða átti atkvæði að hún náði ekki kjöri.
Atkvæðagreiðslan er leynileg og því ekki hægt að vita hver úr meirihlutanum, sem samanstendur af 12 borgarfulltrúum í fimm flokkum, kaus ekki með henni.
Þó er vitað að Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins, fékk eitt atkvæði og minnihlutinn skilaði auðu.
Helga Björk segir að samkvæmt samþykktum borgarstjórnar þá eigi að kjósa aftur þar til að meirihluti næst fyrir forseta borgarstjórnar. Var það því gert og þá hlaut Sanna 12 atkvæði og er þar með réttkjörinn forseti borgarstjórnar.