Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir í samtali við Morgunblaðið hinar röngu upplýsingar sem ráðuneyti hans birti í tilkynningu fyrr í mánuðinum vera frá ríkisskattstjóra komnar.
Um er að ræða skráningardagsetningar flokkanna á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins, en skráning er skilyrði fyrir því að fá úthlutað opinberum styrkjum.
Er hægt að treysta því að rannsókn ráðuneytisins vegna styrkjamálsins hafi verið fullnægjandi, í ljósi þess að þessar grundvallarupplýsingar voru ekki einu sinni réttar?
„Þegar þú sendir fyrirspurn á ríkisskattstjóra og hann svarar þér, hvað átti maður að gera meira,“ spyr ráðherra á móti.
Komu eingöngu þessar dagsetningar fram í svari Skattsins?
„Já.“
Í gögnum sem Morgunblaðið aflaði frá Skattinum vegna flokkanna er gerður greinarmunur á dagsetningu þegar upphaflegri tilkynningu er skilað, fullbúinni umsókn með fylgigögnum og svo skráningu sem jafnan var afgreidd strax í kjölfar þess að fullbúinni umsókn hafði verið skilað.
Þær dagsetningar sem fjármálaráðuneytið birtir sem skráningardagsetningar flokkanna eru dagsetningar upphaflegra tilkynninga þeirra. Fullbúin skráning felur í sér tilkynninguna ásamt lögákveðnum fylgigögnum, en enginn flokkur hafði skilað tilkynningu ásamt öllum fylgigögnum þegar ráðuneytið greiddi styrkina út árið 2022.
Styrkir vegna ársins 2022 voru greiddir út til allra flokka 31. janúar 2022, þrátt fyrir að þeir uppfylltu ekki skilyrði laga. Fjármálaráðuneytið hefði eftir ströngum skilyrðum laga átt að bíða með greiðslu til hvers flokks það árið þangað til skilyrðin voru uppfyllt.
Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna Samfylkingarinnar og Viðreisnar, þar á meðal Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, hafa haldið því fram að flokkar þeirra hafi uppfylt skilyrði laganna þegar styrkirnir voru greiddir út árið 2022.