Segist hafa fengið rangar upplýsingar frá Skattinum

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eyþór

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir í samtali við Morgunblaðið hinar röngu upplýsingar sem ráðuneyti hans birti í tilkynningu fyrr í mánuðinum vera frá ríkisskattstjóra komnar.

Um er að ræða skráningardagsetningar flokkanna á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins, en skráning er skilyrði fyrir því að fá úthlutað opinberum styrkjum.

Er hægt að treysta því að rannsókn ráðuneytisins vegna styrkjamálsins hafi verið fullnægjandi, í ljósi þess að þessar grundvallarupplýsingar voru ekki einu sinni réttar?

„Þegar þú sendir fyrirspurn á ríkisskattstjóra og hann svarar þér, hvað átti maður að gera meira,“ spyr ráðherra á móti.

Komu eingöngu þessar dagsetningar fram í svari Skattsins?

„Já.“

Í gögnum sem Morgunblaðið aflaði frá Skattinum vegna flokkanna er gerður greinarmunur á dagsetningu þegar upphaflegri tilkynningu er skilað, fullbúinni umsókn með fylgigögnum og svo skráningu sem jafnan var afgreidd strax í kjölfar þess að fullbúinni umsókn hafði verið skilað.

Þær dag­setn­ing­ar sem fjár­málaráðuneytið birt­ir sem skrán­ing­ar­dag­setn­ing­ar flokk­anna eru dag­setn­ingar upphaflegra til­kynn­inga þeirra. Full­bú­in skrán­ing fel­ur í sér til­kynn­ing­una ásamt lögákveðnum fylgigögn­um, en eng­inn flokk­ur hafði skilað til­kynn­ingu ásamt öll­um fylgigögn­um þegar ráðuneytið greiddi styrk­ina út árið 2022.

Styrk­ir vegna árs­ins 2022 voru greidd­ir út til allra flokka 31. janú­ar 2022, þrátt fyr­ir að þeir upp­fylltu ekki skil­yrði laga. Fjár­málaráðuneytið hefði eft­ir ströng­um skil­yrðum laga átt að bíða með greiðslu til hvers flokks það árið þangað til skil­yrðin voru upp­fyllt.

Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna Samfylkingarinnar og Viðreisnar, þar á meðal Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, hafa haldið því fram að flokkar þeirra hafi uppfylt skilyrði laganna þegar styrkirnir voru greiddir út árið 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka